Sögulegt skólamunasafn þarf að víkja

Stjórn Hollvinafélags Austurbæjarskóla lýsir áhyggjum sínum af framtíð skólamunastofu í …
Stjórn Hollvinafélags Austurbæjarskóla lýsir áhyggjum sínum af framtíð skólamunastofu í opnu bréfi til borgaryfirvalda. Frá vinstri eru Guðmundur Sighvatsson, Pétur Hafþór Jónsson, Dagný Marinósdóttir formaður, Sigrún Lilja Jónasdóttir og Nína M. Magnúsdóttir. Myndin er tekin árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður stjórnar Hollvinafélags Austurbæjarskóla segir bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, þess efnis að skólamunasafn í risi Austurbæjarskóla skuli fjarlægt, koma sér mjög á óvart.

„Ég bara veit ekki hvers vegna þetta er gert. Þetta kemur okkur alveg á óvart,“ segir Dagný Marinósdóttir formaður, í samtali við blaðamann mbl.is.

Hollvinafélag Austurbæjarskóla hefur í tæp sex ár varðveitt safn gamalla muna, bóka, mynda og skjala sem tengjast skólastarfi í risi skólans, en Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri eftirlét Hollvinafélaginu rýmið undir það árið 2015.

Hollvinir skólans hafa síðan þá komið ýmsum munum fyrir í risinu í sjálfboðavinnu, og hafa tekið á móti gestum og gangandi við tækifæri, s.s. á menningarnótt og vorhátíð Austurbæjarskóla.

En skólamunastofan mun heyra sögunni til ef tillaga skóla- og frístundasviðs borgarinnar nær fram að ganga. Að sögn Dagnýjar vill sviðið, og skólastjórnendur, leggja húsnæði skólamunastofunnar undir fyrirhugað íslenskuver fyrir erlenda nemendur.

„Ég hef enga trú á því að það verði nokkurn tíma samþykkt að krökkunum verði kennt í þessu rými. Þetta hentar bara ekki sem kennslustofa, og mér skilst að það sé búið að dæma rýmið óhæft til kennslu,“ segir hún.

„Við upplifum þetta sem afsökun til að koma okkur út.“

Ekkert pláss fyrir munina

Dagný segir Hollvinafélagið hafa gert ítrekaðar tilraunir til að færa safnið um set, en hafi litlar sem engar undirtektir fengið.

„Í fyrra fórum við í mikla herferð og töluðum við fólk frá borginni og söfnunum, fengum fólk frá Borgarsögusafni og Borgarskjalasafni í heimsókn og töluðum við alla sem okkur gat dottið í hug í til að tryggja framtíð safnsins,“ segir hún. „Því ef þetta á að vera opið almennt safn getur það auðvitað ekki verið þarna, við höfum alltaf vitað það. En það var hvergi smuga, enginn hafði pláss fyrir okkur.“

Í stað safnsins kemur íslenskuver fyrir erlenda nemendur.
Í stað safnsins kemur íslenskuver fyrir erlenda nemendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þess vegna vonuðumst við til að safnið fengi að vera í risinu áfram, þangað til einhverjar aðrar leiðir opnuðust til að setja upp almennilegt skólamunasafn,“ segir Dagný.

„En svo kemur þetta allt í einu upp núna, og það er eiginlega ekki hægt að skilja það öðruvísi en að Helgi Grímsson [sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar] og Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri vilji að þetta fari. Ég held hreinlega að þau vilji ekki hafa þetta í skólanum.“

Húsnæðisskortur ólíkleg skýring

Sem fyrr segir á rýmið, sem skólamunastofan fyllir nú, að vera notað undir íslenskuver fyrir erlend börn á grunnskólaaldri.  

„Þau eru með þá hugmynd að börn sem eru nýkomin til landsins, og tala ekki íslensku, eigi að vera þarna í 3-9 mánuði í íslenskukennslu, þangað til þau geta svo farið hvert inn í sinn bekk,“ segir Dagný.

Námsbækur frá fyrri tímum.
Námsbækur frá fyrri tímum. Kristinn Magnússon

Henni er þó fyrirmunað að skilja hvers vegna rýmið undir skólamunina þurfi að víkja, og telur húsnæðisskort vera ólíklega ástæðu, m.a. með vísan í minnkandi nemendahóp innan skólans.

„Og á meðan Guðmundur R. Sighvatsson var skólastjóri voru tvær kennslustofur á besta stað í skólanum notaðar undir það sem þá hét móttökudeild nýbúa. Austurbæjarskóli á sér nefnilega langa sögu hvað kennslu fyrir erlenda nemendur varðar.“

Engin svör borist frá ráðamönnum

Áhyggjur stjórnar Hollvinafélagsins um framtíð safnsins, sem lýst var í opnu bréfi sem sent var til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, mennta- og menningarmálaráðherra, Borgarsögusafns, Borgarskjalasafns, skóla- og frístundasviðs borgarinnar og fleiri tengdra aðila fyrir um viku, hefur engan hljómgrunn fengið.

„Þau svara okkur ekki einu sinni,“ segir Dagný.

„Svo okkur var bara ráðlagt að hafa samband við fjölmiðla, fyrst við fáum engin viðbrögð.“

Hún óttast það að munir safnsins muni einfaldlega eyðileggjast fái þeir ekki viðunandi samastað.

„Það eru svo margir fallegir hlutir í þessu safni og það væri ótrúlega sorglegt ef þessu yrði öllu troðið inn í bragga einhvers staðar, eða kjallara úti í bæ, þar sem það myndi bara skemmast.“

Blekfjölritari skólans. „Aðeins skólaritara og fáeinum kennurum var heimilt að …
Blekfjölritari skólans. „Aðeins skólaritara og fáeinum kennurum var heimilt að nota fjölritarann. Hlutverk hans var að fjölfalda miðsvetrarpróf og vorpróf. Að lokinni notkun er hjálmur settur yfir og festur með hengilás við botninn. Fjölritari þessi verður með tíð og tíma frægur hönnunargripur. Hann kom fyrst á markað árið 1929 og er höfundarverk hins fransk-ameríska Raymond Loewy, sem verður þekktur fyrir straumlínulagaða hönnun sína.“ Ljósmynd og texti/Pétur Hafþór Jónsson


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert