„Komum flottar inn í leikinn“

Helena í mikilli baráttu undir körfunni í Ólafssal í kvöld.
Helena í mikilli baráttu undir körfunni í Ólafssal í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Hauka, var ánægði með frammistöðu Hauka gegn Uniao Sporti­va í Hafnarfirði í kvöld en segir jafnframt að Haukar geti leikið enn betur. 

Haukar sigruðu 81:76 í fyrstu um­ferð Evr­ópu­bik­ars­ins.

„Ég held að ákafur varnarleikur og mikil barátta hjá okkur hafi skipt mestu máli í þessu ásamt frekar skynsamlegum sóknarleik. Við komum bara ótrúlega flottar inn í leikinn og byrjunin gaf okkur smá sjálfstraust. Mér fannst við spila fínan leik,“ sagði Helena þegar mbl.is ræddi við hana að leiknum loknum. 

Haukar fara því með fimm stiga forskot í síðari leikinn á Asoreyjum eftir viku. Hvernig metur Helena stöðuna í rimmunni?

„Við erum fimm stigum yfir og auðvitað er mikilvægt að taka með sér forskot. Við vissum ekki alveg við hverju mátti búast. Við skoðuðum leikmannahópinn hjá þeim en áttuðum okkur ekki á því hversu mikla möguleika við ættum. Við reyndum að gera okkar allra allra besta og frábært að ná í sigur. En nú getum við lagst yfir þennan leik. Þótt við höfum spilað vel þá finnst mér við eiga slatta inni. Við getum bætt litla hluti í vörninni og fundið betri leiðir að körfunni í sókninni.“

Elísabeth Ýr Ægisdóttir skoraði 11 stig í leiknum.
Elísabeth Ýr Ægisdóttir skoraði 11 stig í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Athygli vakti hve áræðnar ungar konur í Haukaliðinu voru í leiknum. Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 14 stig í leiknum og Elísabeth Ýr Ægisdóttir 11 stig en þær eru einungis 18 ára. Þá léku einnig 16 og 17 ára gamlir leikmenn í Haukaliðinu: Jana Falsdóttir og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir. 

„Við vorum með tvær 18 ára stelpur sem spiluðu meira en 25 mínútur hvor og stóðu sig ekkert smá vel. Það er dýrmætt fyrir okkur og þeir eiga hrós skilið fyrir frábæran leik,“ sagði Helena sem þurfti að sætta sig við að yfirgefa völlinn með fimm villur þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Haiden Palmer hafði fengið þrjár villur strax í fyrsta leikhluta sem skapaði vandræði fyrir Hauka í fyrri hálfleik. Var eitthvað út á dómgæsluna að setja?

„Það tók okkur smá tíma að átta okkur á línunni sem dómararnir settu. Ég er reyndur leikmaður og geri yfirleitt ekki þau mistök að fá fimm villur. En tvisvar í röð kom hún alveg galopin að körfunni og ég ætlaði bara að stíga fyrir. Svona gerist en við erum með frábært og liðsfélagar mínir kláruðu dæmið. Þær gerðu þetta reyndar ansi erfitt fyrir mig því ég er stressuð þegar ég er fyrir utan völlinn. 18 ára stelpurnar voru inn á í lokin og voru þvílíkt rólegar með boltann. Þær stóðu sig vel undir lokin og Haiden auðvitað líka,“ sagði Helena Sverrisdóttir ennfremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert