Sumir staðir beinlínis hættulegir

Arnar segir að víða skorti upplýsingar um hættur og aðgengi.
Arnar segir að víða skorti upplýsingar um hættur og aðgengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir að með fjölgun ferðamanna aukist slysahætta og því mikilvægt að bæta upplýsingaflæði til ferðamanna um hættur sem kunna að vera til staðar og aðgengi á hættulegum stöðum.

Kona á þrítugsaldri lést á miðvikudag eftir að hafa fallið fram af brún gils við fossinn Glym. Um er að ræða stað sem er vinsæll hjá ferðamönnum en á meðan skilti og leiðbeiningar um gönguleiðir eru til staðar þá skortir ýmsar úrbætur.

Arnar segir að víða skorti upplýsingar um hættur og aðgengi.

„Merkingum er sums staðar ábótavant og ekki síst á þeim stöðum þar sem það er fyrirséð að ferðalangar geti komið sér í hættu – það getur beinlínis verið hættulegt að fara á suma staði sem er verið að heimsækja, sérstaklega ef það er að koma á eigin vegum og er án leiðsögumanns.“

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri.
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ekki hlynntur því að loka stöðum

Kveðst Arnar almennt ekki hlynntur boðum og bönnum, á borð við að loka stöðum en þó þeirrar skoðunar að það að upplýsa fólk um mögulegar hættur sé lykilatriði.

„Það áttar sig ekki alltaf á þeim. Upplýsingar og merkingar geta svo sannarlega gert mikið. Ef við segjum þeim ekki að þessir staðir séu hættulegir þá líta þau á þennan stað sem hættulausan – þau átta sig ekki á hættunum.“

Arnar segir að nokkrir aðilar komi að því að bæta aðgengi í Glymsgili. Þar á meðal séu landeigendur, eða umsjónaraðilar svæðisins, og sveitarfélagið.

„Ég veit til þess að björgunarfélag Akraness hafi gert það líka,“ segir Arnar.

Viðbúnaður í Glymsgili á miðvikudag.
Viðbúnaður í Glymsgili á miðvikudag. Ljósmynd/Landsbjörg

Verðum að gera enn betur

Segir hann Ferðamálastofu hafa stutt við bakið á þeim með stuðningi úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða, með það að leiðarljósi að bæta aðgengi og gera það öruggara með gerð göngustíga og uppsetningu á skiltum og öðrum merkingum.

„Glymsgil er stórkostlegur staður og mikið aðdráttarafl. Það eru að koma þarna yfir sumartímann yfir 300 manns á dag. Með auknum þunga ferðamanna þá eykst slysahættan,“ segir Arnar.

„Við verðum að gera enn betur í því að bæta aðgengi og stuðla að auknu öryggi,“ bætir hann við og kveðst ætla að boða aðila til samráðsfundar um öryggi ferðamanna.

„Ekki aðeins með þetta svæði í huga, heldur líka um aðra ferðamannastaði á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert