Úrslitastund í Danmörku - Tekst Lyngby hið ómögulega?

Freyr Alexandersson fagnar sigri í síðasta leik liðsins gegn Álaborg. …
Freyr Alexandersson fagnar sigri í síðasta leik liðsins gegn Álaborg. Mun hann fagna í dag? Ljósmynd/Lyngby

Lokaumferðin í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar fer fram í dag og þá ræðst það hvaða lið falla úr deildinni.

Gríðarleg spenna er á botni deildarinnar en Lyngby, Horsens og AaB frá Álaborg eru öll með 27 stig fyrir lokaumferðina. Horsens fær Lyngby í heimsókn og AaB fær Silkeborg í heimsókn. Leikirnir hefjast klukkan 12.

Ef AaB vinnur sinn leik í dag þá falla Lyngby og Horsens, markatala AaB er töluvert betri en hinna liðanna. Fari hinsvegar svo að AaB mistakist að vinna sinn leik þá er leikur Horsens og Lyngby hreinn úrslitaleikur um sæti í efstu deild að ári.

Aron Sigurðarson leikur með Horsens en Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby og með liðinu leika þeir Sævar Atli Magnússon, Kolbeinn Birgir Finnsson og Alfreð Finnbogason. Alfreð verður ekki með í leiknum mikilvæga í dag þar sem hann er í leikbanni.

Veturinn var erfiður fyrir Lyngby og kom fyrsti sigur liðsins ekki fyrr en í 17. umferð deildarinnar. Það að liðið eigi nú möguleika á að halda sér uppi er hreint út sagt ótrúlegt.

„Ég held að allir hjá félaginu hefðu tekið þessari stöðu ef hún hefði boðist okkur í vetur. Við höfum haldið í trúna alla leið og talið að við ættum möguleika. Þó við þurfum að treysta á önnur úrslit þá erum við í stöðu sem við gátum einungis leyft okkur að dreyma um í vetur.“ sagði Freyr Alexandersson við heimasíðu Lyngby.

Það er mikill áhugi fyrir leiknum í dag hjá stuðningsmönnum Lyngby og uppselt er í tíu rútur sem ferðast í leikinn. Leikmenn Lyngby tóku sig til og létu sektarsjóð liðsins fara upp í rútukostnað fyrir stuðningsmenn sína.

„Ég er gríðarlega stoltur af þeim stuðningi sem við fáum í Horsens. Félaginu hefur tekist að sameina allt bæjarfélagið og við erum með bestu mætinguna á þessu tímabili í sögu félagsins. Við gerum allt sem við getum til að gera stuðningsmenn okkar ánægða.“ sagði Freyr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert