Opinbera gögn um tengsl Sádi-Arabíu við 11. september

Í gær var þess minnst að 20 ár eru liðin …
Í gær var þess minnst að 20 ár eru liðin frá hryðjuverkunum í Bandaríkjunum. AFP

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur opinberað gögn sem rannsaka tengsl ríkisborgara frá Sádi-Arabíu sem bjuggu í Bandaríkjunum og tveggja hryðjuverkamannanna sem tóku þátt í árásunum 11. september árið 2001.

Aðstandendur fórnarlambanna sem fórust í árásunum hafa lengi kallað eftir að gögnin verði gerð opinber þar sem þeir telja að yfirvöld í Sádi-Arabíu vissu af árásunum og gerðu ekkert til þess að reyna að stöðva þær.

Gögnin veita hins vegar engar vísbendingar um að ríkisstjórnin í Sádi-Arabíu hafi vitað af árásinni en 15 af 19 flugræningjum árásanna voru frá Sádi-Arabíu.

Áður en gögnin voru gefin út sagðist sendiráð Sádi-Arabíu í Washington-borg fagna því að gögnin yrðu gerð opinber. Þau ítreki að engin tengsl séu á milli ríkisins og flugræningjanna og lýsti sendiráðið þeim orðrómum sem „röngum og hatursfullum“.

Gögnin eru þau fyrstu af nokkrum sem Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagst ætla að opinbera í kjölfar þess að 20 ár eru liðin frá árásunum.

Fengu aðstoð frá ríkisborgurum Sádi-Arabíu

Um er að ræða 16 blaðsíðna skjal þar sem enn er talsvert yfirstrikað. Það byggir á viðtölum við ónafngreindan heimildarmann þar sem hann lýsir samskiptum á milli ríkisborgara frá Sádi-Aarabíu og tveggja flugræningja, Nawaf al-Hazmi og Khalid al-Midhar.

Flugræningjarnir tveir þóttust vera nemar er þeir komu til Bandaríkjanna árið 2000. Skjalið segir að þeir hafi fengið mikinn stuðning frá Omar al-Bayoumi en vitni segja að hann hafi verið tíður gestur á ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Los Angeles-borg. Al-Bayoumi hafði þá landvistarleyfi sem nemi.

Heimildarmaðurinn segir að al-Bayoumi hafi verið „mjög hátt settur“ á ræðismannaskrifstofunni. Hann aðstoðaði al-Hazmi og al-Midhar meðal annars fjárhagslega og veitti þeim húsnæði.

Þá segir í skjalinu að flugræningjarnir hafi einnig haft góð tengsl við Fahad al-Thumairy sem var íhaldsamur imam í mosku í Los Angeles. Heimildarmenn segja hann hafa haft „öfgakenndar skoðanir“.

Al-Thumairy og al-Bayoumi fóru frá Bandaríkjunum nokkrum vikum fyrir árásirnar 11. september árið 2001.

Frétt á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert