Hópsmitið tengist ferðaþjónustu

Vík í Mýrdal. Hópsmitið má rekja til vinnustaðar í Mýrdalshreppi.
Vík í Mýrdal. Hópsmitið má rekja til vinnustaðar í Mýrdalshreppi. mbl.is/Jónas Erlendsson

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, staðfesti í samtali við mbl.is að hópsmitið sem greindist í dag mætti rekja til vinnustaðar sem starfar í tengslum við ferðaþjónustu. Þorbjörg gat þess ekki hvers konar ferðaþjónustu en sagði að ekki væri um gistingu að ræða.

Vísir greindi fyrst frá þessu.

Þá var að sögn Þorbjargar lítil starfsemi í gangi á vinnustaðnum og rakningu lokið hjá almannavörnum. Þá sagði hún enga aðra ferðamenn hafa verið á staðnum. 

„Þetta er afmarkað svæði og þau virðast ekki hafa farið af staðnum síðan þetta smit kom upp,“ sagði Þorbjörg.

Þorbjörg segir hópsmitið sem kom upp á vinnustaðnum ekki hafa nálgast þéttbýli. Þó sé einn sem tengist smitunum á Vík en hann er kominn í einangrun.

Þá sagði Þorbjörg að henni hefði óneitanlega brugðið við fréttirnar en að auðvitað gæti maður alltaf átt von á því að smit kæmu upp enda oft fólk á ferðinni á svæðinu.

„En vonandi er þetta bara svona og það verður ekkert meira úr þessu. En þetta kveikir á perunni væntanlega hjá mörgum. Ef menn hafa verið farnir að slaka á sóttvörnum þá brýnir þetta okkur klárlega,“ sagði Þorbjörg að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert