71 skipun á 13 mínútum

Mótmælendur í Atlanta í Georgíuríki Bandaríkjanna um helgina.
Mótmælendur í Atlanta í Georgíuríki Bandaríkjanna um helgina. AFP/Cheney Orr

Flóð skipana dundi á Tyre Nichols við handtöku hans samkvæmt greiningu dagblaðsins The New York Times. Þar segir að á aðeins 13 mínútna tímabili hafi lögreglan kallað 71 skipun til Nichols áður en þeir tilkynntu að hann væri kominn í vörslu lögreglunnar.

Þá breytti það engu að hann væri handjárnaður og lægi á jörðinni, því skipun um að leggjast á jörðina var öskruð til hans milli þess sem sparkað var í hann og hann laminn.

Skjámynd frá myndavél festri á lögreglu af Tyre Nichols þar …
Skjámynd frá myndavél festri á lögreglu af Tyre Nichols þar sem honum er skipað að leggjast niður á jörðina. AFP/mynd frá lögregludeild Memphis borgar

Honum var skipað að setjast upp, þrátt fyrir að hann gæti það ekki hjálparlaust og vegna þessa varð ofbeldið meira og meira. Honum var skipað að sýna hendurnar, þegar þær voru í handjárnum fyrir aftan bak. Þetta var óvinnandi vegur fyrir fórnarlambið og reiði lögreglumannanna magnaðist, að því er segir í umfjöllun blaðsins. 

Í myndskeiðum sem hafa verið birt opinberlega og sýna handtöku Nichols, þá kemur berlega í ljós reiði lögreglunnar eftir að Nichols tók á rás. Í myndskeiðinu heyrist lögreglumaður, sem virðist vera í slæmu líkamlegu formi, mása og blása við eftirförina þar til hann snýr aftur að lögreglubifreiðinni. Þar var annar lögreglumaður sem hafði fengið piparúða ætlaðan Nichols í augun. Stemningin var þannig að Nichols skyldi refsað fyrir piparúðann og hlaupin. 

Athygli vekur að í máli Tyre Nichols að allir lögreglumennirnir fimm, sem komu að barsmíðunum, voru svartir. Í gær, var svo greint frá því að að sjötti lögreglumaðurinn hefði verið sendur í tímabundið leyfi frá lögreglu Memphis-borgar vegna handtöku Nichols. 

Preston Hemphill er eini hvíti lögreglumaðurinn sem var viðstaddur handtökuna í upphafi og er sagður hafa beitt rafbyssu á Nichols, en síðar dregið sig í hlé og ekki verið viðstaddur þegar barsmíðarnar hófust.

Hann sést aðeins takmarkað á þeim myndböndum sem birt hafa verið.

Fjölskylda Nichols segir það sérkennilegt að eini hvíti lögreglumaðurinn hafi ekki verið nefndur í tengslum við handtökuna fyrr en núna. Hver aðild Hemphill var í handtökunni mun ekki koma í ljós fyrr en í réttarhöldunum.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert