Góður Valssigur á Akureyri

Valskonan Mist Edvardsdóttir sækir að Margréti Árnadóttur úr Þór/KA í …
Valskonan Mist Edvardsdóttir sækir að Margréti Árnadóttur úr Þór/KA í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Valskonur halda toppsætinu í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta eftir góðan sigur gegn Þór/KA á Akureyri í dag. Valur réð ferðinni nánast allan leikinn og verðskuldaði 3:1-sigur. 

Saltpay-völlurinn í Þorpinu á Akureyri var vel blautur eftir klukkustundar úrhelli í dag þegar liðin gengu til leiks. Liðin byrjuðu nokkuð rólega en þegar á leið fór Valur að þjarma að heimakonum og eftir nokkuð stöðuga pressu kom fyrsta markið. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA var nýbúin að bjarga á ögurstundu í horn þegar hún sjálf skallaði boltann í stöng og inn eftir hornspyrnuna. Var það mark örlítið slysalegt en Valur gerði betur í slysalegum mörkum þegar stutt var í hálfleiksflautið.

Þá gáfu Valskonur boltann beint á Margréti Árnadóttur sem negldi honum á mitt Valsmarkið frá vítateigslínu. Sandra Sigurðardóttir fékk boltann beint á sig í höfuðhæð en náði ekki að verja þrátt fyrir góða skutlu. Ballið var ekki búið í fyrri hálfleiknum því Dóra María Lárusdóttir skaut í bláhornið á marki Þórs/KA úr aukaspyrnu rétt fyrir hlé. Staðan var því 2:1 í hálfleik fyrir Val. 

Valur gerði svo gott sem út um leikinn á fyrstu mínútunni í seinni hálfleik þegar Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði auðvelt mark eftir skot frá Elínu Mettu sem hafnaði í markvinklinum. Boltinn skaust þaðan hátt upp í loftið áður en Ásdís Karen setti hann í markhornið. Fátt markvert gerðist svo í leiknum fyrir utan glæsilega markvörslu hjá Hörpu sem varði frá Sólveigu Larsen sem komin var ein í gegn. 

Arna Sif Ásgrímsdóttir var algjör yfirburðarmaður í liði heimakvenna en Harpa Jóhannsdóttir átti líka flottar vörslur. Frammistaða Valskvenna var heilt yfir ágæt og leikmenn náðu oft upp góðum spilköflum á erfiðum vellinum. Dóra María hélt upp á afmælið sitt með skínandi leik en hún, Lára Kristín Pedersen og Mist Edvardsdóttir voru flottar hjá Val í dag. 

Þór/KA 1:3 Valur opna loka
90. mín. Clarissa Laris­ey (Valur) kemur inn á +3
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert