María skoraði tvö í stórsigri

María Catharina Ólafsdóttir Gros í leik með Þór/KA síðastliðið sumar.
María Catharina Ólafsdóttir Gros í leik með Þór/KA síðastliðið sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

María Catharina Ólafsdóttir Gros átti stórleik í liði Celtic þegar liðið gjörsigraði Partick Thistle í skosku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag.

María skoraði tvívegis í 7:0-sigri, þar sem hún lék allan leikinn.

Bæði mörk Maríu komu í fyrri hálfleik.

Hún kom Celtic í 2:0 á 21. mínútu þegar hún fylgdi eftir skoti liðsfélaga síns sem hafði verið varið út í vítateig.

María skoraði svo annað mark sitt þegar hún kom liðinu í 4:0 á 38. mínútu. Þá fékk hún góða fyrirgjöf og stýrði boltanum í netið.

Staðan var 5:0 í hálfleik og eftirleikurinn því auðveldur fyrir Celtic í síðari hálfleik, þar sem tvö mörk bættust við.

Celtic er eftir sigurinn áfram í þriðja sæti skosku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á eftir nágrönnum sínum í Rangers og fimm stigum á eftir hinum nágrönnum sínum í Glasgow City.

Rangers á leik til góða og getur komist á toppinn með jafntefli eða sigri síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert