„Einn efnilegasti leikmaður Íslands“ framlengir

Hekla Eik Nökkvadóttir í leik með Grindavík.
Hekla Eik Nökkvadóttir í leik með Grindavík. mbl.is/Óttar Geirsson

Hekla Eik Nökkvadóttir, leikmaður Grindavíkur í körfuknattleik kvenna, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt.

Hekla Eik er 19 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur verið ein af máttarstólpum liðs Grindavíkur undanfarin þrjú tímabil. Tímabilið 2020/2021 var hún valin besti ungi leikmaðurinn í 1. deild og jafnframt valin í lið ársins í deildinni þegar Grindavík tryggði sér sæti í úrvalsdeild.

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur,er hæstánægður með að halda Heklu Eik í röðum liðsins og sparaði ekki stóru orðin í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild félagsins:

„Hekla er einn efnilegasti leikmaður Íslands sem á framtíðina fyrir sér. Það var forgangsmál hjá mér að halda henni til að geta tekið næsta skref með liðið.“

Í tilkynningunni er greint frá því að á lokahófi körfuknattleiksdeildar Grindavíkur á dögunum hafi hún hlotið viðurkenningu fyrir mestu framfarir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert