Skora á Íslandspóst að halda áfram rekstri í Mjódd

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, var flutningsmaður tillögunnar sem hlaut einróma …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, var flutningsmaður tillögunnar sem hlaut einróma samþykki í borgarstjórn í gær. Samsett mynd

Samþykkt var einróma, á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gærkvöldi, tillaga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks um að skora á Íslandspóst ohf. að halda áfram rekstri póstafgreiðslu í Mjóddinni í Breiðholti.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og flutningsmaður tillögunnar, segir í tilkynningu mjög ánægjulegt að full samstaða skyldi nást í borgarstjórn um þessa áskorun.

Frá borgarstjórnarfundi í vetur.
Frá borgarstjórnarfundi í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmennasta hverfi landsins

Hann segir pósthúsið í Mjódd mjög fjölsótt og að borgarfulltrúar telji brýnt að þessi mikilvæga þjónusta fari ekki úr Breiðholti, fjölmennasta hverfi landsins með um 23 þúsund íbúa.

„Pósthúsið er hluti af stórri verslunar- og þjónustumiðstöð í Mjódd. Þá liggur það afar vel við almenningssamgöngum enda er það staðsett í fjölförnustu og best tengdu strætó-skiptistöð landsins.

Góðar umræður urðu um málið í borgarstjórn, sem lyktaði með því að tillagan var samþykkt einróma,“ segir í tilkynningu Kjartans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert