Verstappen á ráspól í Mónakó - Pérez ræsir aftastur

Max Verstappen á ferð um götur Mónakó í dag.
Max Verstappen á ferð um götur Mónakó í dag. AFP/Christian Bruna

Heimsmeistarinn Max Verstappen mun ræsa fyrstur í Mónakó-kappakstrinum sem fram fer á morgun eftir að hafa átt hraðasta tímann í tímatökum fyrr í dag.

Tímatakan í dag var mikil skemmtun og skiptust ökumenn á að vera hraðastir. Það var ekki fyrr en undir lokin á tímatökunni sem Max Verstappen tryggði sér efsta sætið þegar hann keyrði brautina á tímanum 1:11:365.

Spánverjinn Fernando Alonso, sem keyrir fyrir Aston Martin, ræsir annar og heimamaðurinn Charles Leclerc, ökuþór Ferrari, ræsir þriðji.

Alpine í góðum málum en Sergio Perez ræsir aftastur

Esteban Ocon átti mjög góða tímatöku í dag og um tíma leit út fyrir að hann myndi ræsa fyrstur á morgun. Ocon endaði að lokum fjórði og liðsfélagi hans Pierre Gasly mun þá ræsa sjöundi.

Sergio Perez, liðsfélagi Max Verstappen hjá Red Bull Racing, mun ræsa aftastur eftir að hann keyrði utan í vegg í fyrsta hluta tímatökunnar. Perez er sá eini sem virðist geta veitt Verstappen einhverja keppni um heimsmeistaratitilinn en möguleikar hans dvínuðu töluvert í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert