Fótbolti

Aron hafði betur gegn Ara Frey

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Bjarnason spilaði í hægri bakverði.
Aron Bjarnason spilaði í hægri bakverði. Sirius

Aron Bjarnason og félagar í Sirius unnu 1-0 útisigur á Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Sveinn Aron Guðjohnsen spilaði rúmlega stundarfjórðung í 1-1 jafntefli Häcken og Elfsborg.

Bæði Aron og Ari Freyr Skúlason voru í byrjunarliðum sinna liða er Norrköping tók á móti Sirius. Aron lék nokkuð óvænt í hægri bakverði á meðan Ari Freyr var á miðri miðjunni. 

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Japaninn Yukiya Sugita kom Sirius yfir þegar tæp klukkustund var liðin, reyndist það eina mark leiksins og lokatölur 1-0 gestunum í vil. Ari Freyr lék allan leikinn í liði Norrköping en Aron var tekin af velli þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Sirius fer með sigrinum upp fyrir Norrköping en liðin eru nú í 10. og 11. sæti deildarinnar með 17 og 15 stig.

Sveinn Aron og Hákon Rafn Valdimarsson voru á bekknum er Elfsborg sótti Häcken heim. Valgeir Lunddal Friðriksson var ekki í leikmannahóp heimaliðsins. Sveinn Aron kom inn af bekknum í stöðunni 1-1 og tókst ekki að setja mark sitt á leikinn sem lauk með 1-1 jafntefli.

Häcken heldur toppsætinu, nú með 25 stig á meðan Elfsborg er í  7. sæti með 19 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×