Þetta eru málin sem stjórnarandstaðan vill ná í gegn

Þingsalur Alþingis.
Þingsalur Alþingis. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þegar þingið fer að líða undir lok standa samningaviðræður yfir á milli þingflokksformanna um hvaða mál verða sett á dagskrá.

Fram hefur komið að ágreiningur á milli ríkisstjórnarflokkanna sé mikill um stór pólitísk mál og þau hafi því mörg verið lögð til hliðar. Eftir stendur spurningin um það hvaða mál stjórnarandstöðuflokkarnir fá afgreidd.

Oddný G. Harðardóttir segir að ef samningaviðræður gangi vel séu líkur á að hver flokkur fái tvö mál til afgreiðslu. Samningar hafa hins vegar ekki náðst til þessa og óljóst hvað verður.

Beina sjónum að afglæpavæðingu

Píratar freista þess á ný að fá samþykkt frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna. Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, segir að málið hafi verið fellt á síðasta þingi á þeim forsendum að heilbrigðisráðherra ætlaði að vinna málið betur og koma fram með eigið frumvarp.

Nú þegar liggi fyrir að ríkisstjórnin sé búin að svæfa það mál sé ljóst að þeim hafi aldrei verið alvara með að stíga skrefið. Píratar vilji því fá sitt frumvarp aftur á dagskrá, sem Halldóra segir að taki tillit til helstu umsagna sem hafa borist.

Þá vilja Píratar einnig setja á dagskrá frumvarp um bann við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis sem lagt var fram af Andrési Inga.

Aðgerðir á Íslandi frekar en í Svíþjóð

Viðreisn leggur áherslu á tvö mál sem þau vilja fá á dagskrá. Þau eru þingsályktun um heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum og frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar.

Það síðarnefnda felst í því að fólk sem á rétt á að fara til Svíþjóðar því þeir hafa verið lengi á biðlistum eftir aðgerð geti farið í aðgerðirnar hér á landi og fengið þær endurgreiddar af sjúkratryggingum með sambærilegum hætti.

 „Við höfum nægan tíma, það er ekki kosið fyrr en í september“

Miðflokkur heldur á lofti fjórum málum. Þau eru þingsályktun um einföldun regluverks, frumvarp um breytingu á lögum um sýklalyfjanotkun, sem fjallar um að upplýsa um lyfjainnihald í matvælum, þingsályktun um aukna skógrækt til kolefnisbindingar auk endurskoðun laga um almannatryggingar.

Miðflokkurinn hefur lýst yfir andstöðu við frumvarp félags- og barnamálaráðherra um breytingar á lögum um innflytjendur sem taka á fyrir áður en þingi lýkur. Aðspurður hvort að Miðflokkurinn muni beita málþófi undir lok þingsins segir Gunnar Bragi, þingflokksformaður, of snemmt að segja til um það.

Á þessum árstíma hægist á öllu og ennþá eigi eftir að fjalla um nokkur stór mál. „Við höfum nægan tíma, það er ekki kosið fyrr en í september,“ segir hann.

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Árni Sæberg

Vilja græna atvinnubyltingu og hagsmunafulltrúa aldraðra

Samfylkingin leggur annars vegar áherslu á þingsályktunartillögu um græna atvinnubyltingu, sem snýr að því að fjölga störfum og koma á fót grænum fjárfestingasjóði. Það mál er nú inni í efnahags- og viðskiptanefnd.

Hins vegar vilja þau fá á dagskrá þingsályktun um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks, í þeim tilgangi að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og möguleika þeirra á að helga sig íþrótt sinni.

Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, segir flokkinn ætla að leggja áherslu á þrjú mál í viðræðunum.

Þau séu þingsályktun um hagsmunafulltrúa aldraðra, frumvarp sem tryggir fjármagn til að þjálfa og flytja inn blindrahunda í samræmi við eftirspurn og frumvarp um að aldurstengd öryrkjauppbót falli ekki niður við töku lífeyris.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka