Helgarveðri stjórnað af lægð á sveimi

Kort/Veðurstofa Íslands

Helgarveðrinu er stjórnað af lægð sem sveimar um landið. Sökum nálægðar við landið er veður nokkuð fjölbreytt á landinu, austlæg átt og rigning austanlands framan af degi en breytilegar áttir í öðrum landshlutum að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Eftir hádegi og fram á morgundaginn er síðan vestlæg átt sunnan til með skúrum eða slydduél en hæg breytileg átt um landið norðanvert. Slydda eða snjókoma með köflum norðaustanlands en éljagangur á Norðurlandi vestra. Hiti er um og yfir frostmarki en kólnar seint á morgun.

Vegna aðstæðna á Seyðisfirði er appelsínugul úrkomuviðvörun í gildi á Austfjörðum og gildir hún til klukkan 18 í dag.

„Talsverðri rigningu er spáð á Austfjörðum aðfaranótt laugardags og þangað til síðdegis á laugardag, dregur síðan úr úrkomuákefð. Vegna aðstæðna er Seyðisfjörður viðkvæmur fyrir rigningu og endurspeglar viðvörunarlitur áhrif á samfélagið þar.

Spáð er uppsafnaðri úrkomu á Seyðisfirði um 45 mm á þeim tíma sem viðvörunin gildir. Megnið af tímanum er úrkoman á formi slyddu í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli og snjókomu yfir 300 m. Hlýnar svo eftir hádegi á laugardag og fer snjólína þá væntanlega upp í 700-800 m. Einnig er spáð dálítilli vætu á sunnudag, um 15 mm þá,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Austan 8-13 m/s á austanverðu landinu fram að hádegi, annars norðlæg átt 5-10 m/s en 10-15 með suðurströndinni. Rigning austast, lengst af talsverð, annars rigning eða slydda með köflum.

Vestan 10-18 sunnanlands í kvöld og nótt og skúrir en hæg breytileg átt og dálítil slydda norðan til. Vestlæg eða breytileg átt, 5-13 á morgun hvassast á Austfjörðum og með suðurströndinni. Snjókoma með köflum norðaustan til annars víða él. Hiti 0 til 7 stig en heldur kaldara á morgun.

Á sunnudag:
Vestan og norðvestan 8-15 m/s, hvassast með suðurströndinni en hægari norðanlands. Slydda eða snjókoma á norðanverðu landinu og skúrir eða él suðvestan til en þurrt að kalla á Suðausturlandi. Hiti nærri frostmarki.

Á mánudag og þriðjudag:
Ákveðin norðanátt með snjókomu eða éljum á norðanverðu landinu en bjart með köflum sunnan heiða. Víða vægt frost.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðanátt með éljum en léttskýjað syðra og frost á öllu landinu.

Á föstudag:
Útlit fyrir stífa norðanátt með snjókomu en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnanlands. Talsvert frost.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert