Kemur til greina að færa sig um ráðuneyti

Bjarni Benediktsson á Kjarvalsstöðum ídag við undirritun stjórnarsáttmálans.
Bjarni Benediktsson á Kjarvalsstöðum ídag við undirritun stjórnarsáttmálans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jón kemur úr stærsta kjördæmi landsins þar sem fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest. Hann hefur verið þingmaður frá árinu 2007 og gegndi ráðherraembætti um skamma hríð. Hann er ritari flokksins sömuleiðis og hefur sterkt umboð innan flokksins og er ágætlega að þessu kominn,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um ákvörðun sína að tilnefna Jón Gunnarsson sem dómsmálaráðherra í allt að 18 mánuði. 

Hann segir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem taka mun við embættinu af Jóni, sömuleiðis vel að ráðherraembætti komna. 

„Ég veit að það er ákall eftir því að Suðurkjördæmi fái ráðherrastól og því verður svarað á þessu kjörtímabili,“ segir Bjarni. 

Ekki skilyrði að vera löglærður

Hefð hefur verið fyrir að löglærður fulltrúi frá Sjálfstæðisflokknum veiti ráðuneyti dómsmála forystu en hvorki Jón né Guðrún eru lögfræðingar. Spurður út í þetta segir Bjarni að hann telji að rétt hafi verið gert með því að oft á tíðum hafi verið skipaðir lögfræðingum í embættið. 

„Það er hins vegar þannig að ráðuneytisstjórinn er löglærður og það eru margir löglærðir í ráðuneytum og ráðherra getur tekið með sér löglært fólk. Það er því ekki skilyrði að ráðherra sé löglærður. Það eru hins vegar margir málaflokkar sem tengjast öllu frá almannavörnum og starfsemi Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar, netöryggi og slíku sem við erum að leggja áherslu á og krefjast mikið fleiri þátta en lögfræðiprófsins eins og sér,“ segir Bjarni. 

Náðu ekki lendingu fyrr en á föstudaginn

Spurður hvort að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt áherslu á að halda dómsmálaráðuneytinu segir Bjarni að sjálfstæðismenn líti ávallt á það sem mikilvægt. „Já ég er ánægður með að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram um stjórataumana þar en á endanum er þetta alltaf samkomulag, nákvæmlega hvar við flokkarnir stingum okkur niður í ráðuneyti.“

Hann segir að ekki hafi náðst samkomulag milli flokkanna um skiptingu ráðuneyta fyrr en á föstudaginn.

Opinn fyrir breytingu

 „Ég legg upp með það að halda áfram í fjármálaráðuneytinu og hef ekki ákveðið neitt annað. En ég skal vera alveg opinn með það að það gæti alveg gerst að á kjörtímabilinu geri ég breytingu. Ég hef nú þegar verið næstlengst allra ráðherra sem komið hafa í fjármálaráðuneytið ef litið er til uppsafnaðs tíma. Mín bíður núna að flytja fjárlagafrumvarp á nýju þingi og ef ég flyt fjárlögin á næsta ári þá hef ég flutt fyrir Alþingi tíu fjárlagafrumvörp í röð. Kannski verður það tilefni til að skoða möguleikann á breytingu,“ segir Bjarni Benediktsson.

Hann biður fólk um að reyna ekki að lesa neitt frekar í það, ef til þess kæmi að hann myndi færa sig úr sessi og er ekki tilbúinn að segja til um hvaða ráðuneyti komi til greina að færa sig í. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert