Skotárás við hús Drakes

Lífvörðurinn hefur gengist undir aðgerð og er ekki í lífshættu …
Lífvörðurinn hefur gengist undir aðgerð og er ekki í lífshættu að sögn lögreglu. Rapparinn er óskaddaður. AFP

Öryggisvörður rapparans Drakes var skotinn við heimili rapparans í Toronto í nótt. Gerist þetta á meðan tónlistarmaðurinn á í þungum deilum við aðra rappara, sem saka hann m.a. um barnaníð.

Lögreglumenn hafa girt af innganginn að lóð hans á Park Lane Circle í hverfinu Bridle Path. Mikill viðbúnaður hefur verið á svæðinu frá því í morgun, að því er CBC greinir frá.

Skotárásin átti sér stað um klukkan 2.10, skrifar lögregla á X, áður Twitter. Öryggisvörðurinn var skotin í bringuna og var meðvitundarlaus þegar lögreglu bar að. Áverkar hins slasaða eru ekki taldir lífshættulegir, að sögn lögreglu. 

Heimildarmaður CBC úr röðum lögreglu segir við kanadíska miðilinn að fyrstu upplýsingar úr upphaflegu símtalinu bendi til þess að fórnarlambið hafi verið öryggisvörður á heimilinu sem virðist hafa verið skotinn er árásarmaðurinn ók fram hjá.

Hús Drakes í dreifingu á samfélagsmiðlum

Drake hefur átt í erfiðum deilum við bandaríska rapparann Kendrick Lamar undanfarnar vikur.

Bandaríkjamaðurinn hefur sakað Dra­ke og vini hans um að vera kynferðisaf­brota­menn, einkum barn­aníðingar. Hann hefur í raun gefið í skyn að þeir fé­lag­arn­ir stundi einhvers konar man­sal á heim­ili Dra­kes.

Á plötuumslagi sem fylgdi nýjasta lagi Kendrick er jafn­vel loft­mynd af húsi Dra­kes og rauðum örv­um sem eiga að gefa til kynna að þar búi barn­aníðing­ar.

Kendrick hefur aftur á móti ekki sýnt fram á nokkuð til að styðja við þessar ásakanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert