Skiptir ekki máli hvað einhver fjölmiðill segir

Mario Matasovic og Hjálmar Stefánsson í baráttunni í leik kvöldsins …
Mario Matasovic og Hjálmar Stefánsson í baráttunni í leik kvöldsins með Kristófer Acox í bakgrunn. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Ef við hugsum um okkur þá skiptir ekki máli hvað einhver umræða segir,“ sagði Valsarinn Kristófer Acox í samtali við mbl.is eftir 25 stiga sigur, 101:76, á Njarðvík í úrvalsdeild karla í körfubolta kvöld. Með sigrinum tryggði Valur sér deildarmeistaratitilinn. 

„Ég held við lögðum svolítið grunninn að þessu í fyrri hálfleik, við byrjum mjög sterkt, komum sterkir út. Við vitum að þeir eru búnir að vera á góðu skriði, þetta er frábært lið og að koma á þennan völl, þannig maður vissi að þetta yrði erfitt. 

Þeir komu svo til baka í öðrum leikhluta eftir að hafa verið mikið undir en við náðum að halda haus og svo komum við frábærir út í seinni hálfleik og náðum að halda það út.“

Hversu vel voruð þið búnir að rúlla yfir sóknarleik Njarðvíkur fyrir þennan leik?

„Bara ágætlega, eins og maður gerir. Það er einn leikur í viku og þú færð sirka viku til að undirbúa það. Þjálfararnir undirbjuggu gott leikplan og við fylgdum því eftir. 

Þegar við fylgjum leikplaninu svona vel og spilum svona vörn er rosalega erfitt að skora á okkur.“ 

Hver var aðal áhersla kvöldsins?

„Við lögðum upp með að hægja á Nicolas Richotti og Dedrick Deon Basile. Þeir eru mjög klókir og báðir búnir að vera frábærir í vetur. En við vitum að ef við náum aðeins að hægja á þeim og leyfa öðrum að gera meira þá líður okkur eins og við séum í góðum málum.“ 

Umræðan var Njarðvíkur megin fyrir leik kvöldsins, hversu miklu máli skiptir þessi sigur?

„Það skiptir öllu máli upp á fyrsta sætið. Við erum ekkert að pæla í hvað einhver fjölmiðill eða einhver annar segir, við hugsum bara um okkur. 

Ef við hugsum um okkur og reynum að vera betri daglega þá skiptir ekki máli hvað einhver umræða segir. Við mætum á golfið, spilum og stöndum okkur,“ sagði Kristófer að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert