Víkingur vann 3-1 sigur á KA í úrslitum í fyrra og vann liðið þannig fjórða bikartitilinn í röð. KA-menn eru staðráðnir í að láta það ekki endurtaka sig.
„Við erum náttúrulega reynslunni ríkari frá því í fyrra og vitum meira út á hvað þetta gengur. Tilfinningin er mjög góð og við ætlum að taka bikarinn norður í ár, það er bara staðan,“ segir Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA.
Leikmenn KA æfðu á Grenivík í vikunni í aðdraganda leiksins, til að komast á grasvöll. Heimavöllur KA er lagður gervigrasi og þurftu menn að leita út fyrir bæjarmörk Akureyrar til að venjast grasinu fyrir leik morgundagsins.
„Við erum búnir að taka tvær æfingar á Grenivík núna síðustu daga, bara til að komast á gras. Við æfum svo hérna á Laugardalsvelli. Það eru ekkert stórvægilegar breytingar,“ segir Ásgeir, en var gott að breyta til með þessum hætti og fara annað?
„Því miður erum við orðnir svolítið vanir þessu. Við vorum að æfa svolítið vanir þessu. Við æfðum leengi vel á Dalvík fyrir nokkrum árum þegar var verið að byggja upp á KA-svæðinu. Við erum orðnir leiðinlega vanir þessu,“ segir Ásgeir.
Eiga KA-menn harma að hefna eftir úrslitin í fyrra?
„Alveg pottþétt. Ég vona að við munum flestir eftir tilfinningunni eftir leik í fyrra, hversu svekkjandi þetta var. Við fengum geggjaðan stuðning úr stúkunni í fyrra og í raun go veru hefðum við átt að taka hann norður,“ segir Ásgeir, sem er bjartsýnn fyrir morgundaginn.
„Já, alltaf bjartsýnn. Annars væri ég ekki í þessu.“