Erlent

Tekjur af Thule-herstöðinni færast á ný til Grænlendinga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Thule-herstöðinni á Grænlandi. Hún er nyrsta bækistöð Bandaríkjahers.
Frá Thule-herstöðinni á Grænlandi. Hún er nyrsta bækistöð Bandaríkjahers. U.S. Air Force/David Buchanan

Grænlendingar endurheimta margra milljarða verk- og þjónustusamninga við Thule-herstöðina á norðvestur Grænlandi, samkvæmt samningi sem Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, og Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, undirrituðu á fjarfundi í dag. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Steen Lynge, utanríkisráðherra Grænlands, og Robert O'Brien, þjóðaröryggisráðgjafi Hvíta hússins, tóku einnig þátt í þríhliða viðræðum landanna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu landsstjórnar Grænlands.

Þar með er bundinn endi á sex ára deilur, sem hófust árið 2014 þegar Bandaríkjamenn ákváðu að fela bandarískum verktökum að annast margvísleg verkefni við Thule-herstöðina, eða Pituffik, eins og staðurinn nefnist á grænlensku. Við það urðu Grænlendingar af miklum tekjum af verkefnum, sem dansk-grænlenska félagið Greenland Contractors hafði áður sinnt, eins og framkvæmdum af ýmsu tagi, viðhaldi mannvirkja og rekstri mötuneyta í herstöðinni.

Thule-herstöðin. Myndin er tekin síðsumars, í lok ágústmánaðar 2016. Getty/Whitney Shefte

Ólíkt þeirri feimnisumræðu, sem gjarnan var í kringum fjárhagslegan ávinning Íslendinga af veru bandaríska hersins hérlendis, er Kim Kielsen ekkert að leyna því hvert markmið grænlensku stjórnarinnar er með samningnum; „að fá raunverulegan, áþreifanlegan ávinning af veru Bandaríkjamanna,“ eins og hann segir í yfirlýsingu í dag.

Í grænlenska fréttamiðlinum Sermitsiaq kemur fram að þjónustusamningarnir hafi skilað 200 milljónum danskra króna í tekjur á ári, eða sem nemur 4,5 milljörðum íslenskra króna. Í ljósi þess að íbúafjöldi Grænlands er um einn sjötti af íbúafjölda Íslands má meta þetta ígildi 27 milljarða króna árlegra tekna fyrir íslenskt samfélag.

Carla Sands sendiherra og Kim Kielsen forsætisráðherra skoða kort af norðurslóðum á fundi í bandaríska sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn sumarið 2019.Sendiráð Bandaríkjanna í Danmörku

Utanríkisráðherra Grænlendinga, Steen Lynge, segir þetta grundvallarmál fyrir Grænland, sem leggi Bandaríkjunum til land undir bækistöð. Grænlendingar séu stoltir af því lykilhlutverki sem Thule-stöðin og Grænland gegni í öryggis- og varnarmálum Bandaríkjanna, og um leið fyrir Grænland og Norður-Atlantshafið.

Nýr samningur stuðli að því að þjónustusamningar í Thule-stöðinni gagnist grænlenskum fyrirtækjum í framtíðinni. Markmiðið sé að Grænland hafi sem mestan hag af veru Bandaríkjamanna, svo sem með þjálfun starfsfólks, atvinnutækifærum og skatttekjum, segir grænlenski ráðherrann.

Heimsathygli vakti sumarið 2019 þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að hann vildi kaupa Grænland. Svona svaraði Kim Kielsen ósk Trumps:

Hér má heyra hvað Donald Trump sagði um Grænlandskaupin:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×