„Að gera frekar en að gera ekki“

Þorvaldur Daníelsson er með mörg járn í eldinum í tengslum …
Þorvaldur Daníelsson er með mörg járn í eldinum í tengslum við Hjólakraft. Eggert Jóhannesson

„Hjólakraftur snýst alltaf um að koma fólki af stað og halda því í gangi, vera í virkni frekar en vanvirkni, gera frekar en að gera ekki,“ segir Þorvaldur Daníelsson, forsprakki Hjólakrafts, um nýja félagsmiðstöð Hjólakrafts, Brúna, í Völvufelli í Breiðholti. 

„Þetta er alveg sama konsept nema þarna eru ekki reiðhjól heldur klifurveggur, apagarður með köðlum og fimleikahringjum og boxpúða, þythokkí, borðtennis, playstation-herbergi, saumastofa, listastofa, spilaherbergi. Ef við fáum fólkið til að koma og gera eitthvað þarna í sameiningu, þá viljum við líka fá það út að leika. Það er ekki nóg að koma bara inn að leika, heldur förum við líka út til að upplifa eitthvað saman. Það snýst ekki endilega um hjól, heldur bara að gera eitthvað í félagsskap. Allt sem við gerum, meira og minna, í lífinu er félagslegt. Þín hegðun ræðst af þeim félögum sem þú átt.“

Brúin var tilbúin í febrúar á síðasta ári, en vegna kórónuveirufaraldursins hefur formleg opnun ekki farið fram. Eins og sjá má af myndum ljósmyndara mbl.is af húsnæðinu er það stórglæsilegt og þar allt til alls konar afþreyingar.

Aðstaðan er hin glæsilegasta.
Aðstaðan er hin glæsilegasta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur fékk nemendur af listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti til að skreyta rýmið og gaf þeim frjálsar hendur hvað það varðaði og sá fyrir sér eitthvert „skipulagt kaos“ eins og hann orðar það sjálfur. „En þau skiptu bara með sér svæðum og voru ótrúlega skipulögð og flott, sem segir mér allt um það hvað unga fólkið er magnað,“ segir Þorvaldur.

Verði öllum opið

Sem stendur er Brúin ekki opin almenningi en þegar að því kemur segir Þorvaldur að hugmyndin sé að húsnæðið verði öllum opið. Draumurinn sé að Hjólastyrkur verði að stóru samfélagi sem hægt verði að ganga í, svo sem með því að nota frístundastyrkinn, og fá þannig aðgang að Brúnni, hjólaæfingum og annarri afþreyingu á vegum Hjólakrafts, en Þorvaldur er með nokkur járn í eldinum hvað það varðar.

Eins og er er hins vegar hægt að leigja Brúna fyrir afmælisveislur gegn vægu gjaldi, en mikil ánægja er með þennan nýja valkost meðal fjölskyldna í Breiðholti, ef marka má umræður um félagsmiðstöðina í hópi íbúa Breiðholts á Facebook. Það þarf ekki að leggja mikið út til að fá húsnæðið leigt fyrir afmæli, en það er gert með því skilyrði að það verði þrifið að notkun lokinni.

Afmælisveislur og Ikea-hagfræði

„Þetta er svona ákveðin Ikea-hagfræði sem ég nota þar, ég vil ekki taka ársveltuna inn á einu afmæli, heldur vil ég frekar fá inn 365 afmæli,“ segir Þorvaldur. „Við eigum það öll sameiginlegt að vilja halda góð afmæli fyrir börnin okkar, og það má alveg vera á viðráðanlegu verði. Þetta er ódýrt húsnæði í sjálfu sér og það er ekki ástæða til að okra á því, þótt ég hafi lagt talsvert í það þá kemur það inn ef nýtingin er þokkaleg.“

Þorvaldur segir að vissulega hafi nýtingin ekki verið sérlega góð frá því að húsnæðið varð tilbúið, þökk sé kórónuveirufaraldrinum. „En þetta kemur. Kórónuveiran hefur ekkert áhrif á það, hugmyndin er góð og ég veit það alveg. Þegar það rætist úr þá verður þetta allt frábært.“

Meðal þess sem Þorvaldur sér fyrir sér að verði boðið upp á í húsnæðinu er heimanámsaðstoð og er hann að vinna að því að sækja um styrki fyrir því. „Það eru milljón hugmyndir sem hafa fæðst í kringum þetta en það þarf að taka mið af því sem er hægt út frá þeim boðum og bönnum sem eru í gildi hverju sinni.

Svo vill nú til að ég er að vinna í annars konar húsnæði annars staðar. Það hefur ekkert verið að gera hjá mér, þá þarf maður að finna sér verkefni. Ég er í rauninni að undirbúa það sem á eftir kemur, eigum við ekki að vera bjartsýn á það?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert