„Ég er langmest í hafragraut“

Brynjar Logi Halldórsson var helöflugur á NM í Stavern um …
Brynjar Logi Halldórsson var helöflugur á NM í Stavern um helgina og vann til verðskuldaðra silfurverðlauna í 81 kg flokki. Ljósmynd/Aðsend

„Ég náði fyrstu lyftunni minni vel, bara létt 120 kíló,“ segir Brynjar Logi Halldórsson, lyftingamaður úr Lyftingafélagi Reykjavíkur, sem hreppti silfurverðlaun í 81 kg flokki á Norðurlandameistaramótinu í ólympískum lyftingum í Stavern í Noregi um helgina og var auk þess fjórði stigahæstur í aldursflokknum. Lyftan, sem Brynjar greinir frá, var í snörun, annarri keppnisgrein ólympískra lyftinga, og reyndi hann í framhaldinu við 125 og 126 kg til að freista þess að fara með sigur í flokknum, en hinn norski Mats Hofstad var of öflugur andstæðingur í þetta sinnið.

„Clean and jerkið gekk drulluvel,“ heldur Brynjar áfram frásögn sinni þar sem hann er nýlentur á Íslandi ásamt móður sinni, Ernu Héðinsdóttur, sem var dómari á mótinu og mbl.is ræddi við um helgina. Með clean and jerk á Brynjar við hina keppnisgrein ólympískra lyftinga, jafnhendingu. „Ég opnaði með 140 kílóum, sem var bara skítlétt, eins og það á að vera. Hinn gæinn opnaði svo með 145 og ég náði því líka,“ segir Brynjar sem jók svo þyngdina enn og lyfti 151 kílógrammi, sem var töluverð bæting á hans besta árangri, 145 kg, og enn meiri bæting á þyngd í keppni þar sem hann átti 143 kg þyngst. Fóru leikar þó svo að Hofstad endaði með meiri samanlagða þyngd, 275 kg á móti 271 hjá Brynjari.

Vildi ekki hafa mömmu sem dómara

Hann segir undirbúninginn fyrir mót einkennast af mjög þungum og löngum æfingum. „Ég er að æfa svona þrjá tíma fimm sinnum í viku,“ segir Brynjar, þjálfarinn minn heitir Dietmar Wolf, eða hann skrifar prógramm fyrir mig, en mamma er að hjálpa mér mest með tæknina,“ segir Brynjar frá og blaðamaður spyr hvernig sú tilfinning sé að keppa á lyftingamóti með sína eigin móður sem dómara.

„Þetta er nú ekki í fyrsta skipti,“ svarar Brynjar, „en það er ekkert grín,“ heldur hann áfram og hlær. „En hún dæmir mig náttúrulega aldrei og ég býst ekki við að hún muni nokkurn tímann gera það, en reyndar vildi ég ekki hafa hana sem dómara, hún myndi örugglega dæma mig harðar en hina,“ segir Brynjar af móður hans, sem reyndar situr við hlið hans á leið frá flugvellinum.

Brynjar kveðst ekki vilja hafa móður sína, Ernu Héðinsdóttur, í …
Brynjar kveðst ekki vilja hafa móður sína, Ernu Héðinsdóttur, í dómarasætinu þegar hann hefur stöngina á loft, þar sem hún myndi að hans sögn vafalaust dæma hann mun harðar en aðra keppendur. Ljósmynd/Aðsend

Áhugi Brynjars á ólympískum lyftingum hófst þegar hann sá myndskeið af slíkum lyftum á YouTube. „Ég hugsaði bara með mér þetta er klikkað, mig langar að gera þetta. Svo ég hringdi bara í mömmu og bað hana að kenna mér,“ segir Brynjar, sem er 19 ára gamall og keppti því í eldri flokknum um helgina, flokki ungmenna undir 20 ára, en Norðurlandamótið náði einnig yfir unglinga, undir 17 ára.

Stefnan sett á HM á Krít

Hann kveður samstöðuna góða hjá iðkendum þótt hann kjósi sjálfur að æfa að mestu einn og með tónlist í eyrunum. „En það eru margir eldri strákar, sem voru miklu betri en ég, sem hafa verið að hjálpa mér mjög mikið síðan ég byrjaði og nú er ég eiginlega að ná öllum þessum strákum, ég var til dæmis að taka met eins þeirra um helgina,“ segir Brynjar og á þar við Birki Örn Jónsson, félaga sinn í sportinu.

Fram undan hjá Brynjari er heimsmeistaramót yngri en 20 ára á Krít í mars og hefst því undirbúningur hans fyrir það mót nú þegar að loknu mótinu í Stavern og kveður hann mataræðið vega þungt í lyftingunum. „Ég er langmest í hafragraut, hann er alveg tvisvar á dag,“ segir Brynjar af þungamiðju matseðilsins og ekki veitir af þar sem hann hyggst þyngja sig um flokk á næsta ári og spreyta sig í 89 kg flokki. „Ég er búinn að taka öll metin í 81 svo nú er bara næsta markmið að taka öll metin í flokknum fyrir ofan og þyngja mig vel, kílóin bætast á stöngina þegar kílóin bætast á sjálfan þig,“ segir Brynjar Logi Halldórsson lyftingamaður að lokum, með silfurmedalíu í farteskinu frá mjög sterku Norðurlandamóti um helgina þar sem íslenskir keppendur áttu stórleik.

Eggert Ólafsson þjálfari, Erla Ágústsdóttir, Bjarki Breiðfjörð Björnsson, Brynjar Logi …
Eggert Ólafsson þjálfari, Erla Ágústsdóttir, Bjarki Breiðfjörð Björnsson, Brynjar Logi Halldórsson og Sigurður Darri Rafnsson þjálfari. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert