Handbolti

Icelandic Airways í evrópska handboltanum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon ná vel saman.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon ná vel saman. Getty/Peter Niedung

Samvinna tveggja íslenskra landsliðsmanna vakti mikla athygli í sigri þýska liðsins SC Magdeburg í EHF Evrópudeildinni í gær.

Tvær framtíðarmenn íslenska karlalandsliðsins í handbolta spila nú saman hjá þýska liðinu SC Magdeburg og þeir buðu upp á flotta tilþrif í gær.

SC Magdeburg var þá að spila á móti RK Nexe frá Króatíu og vann öruggan 32-24 útisigur eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 15-8.

Íslensku landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson eru á sínu fyrsta tímabili saman hjá liðinu en þetta eru ungir menn sem eiga framtíðina fyrir sér.

Ómar Ingi er 23 ára en þegar kominn með meira en fjögurra ára reynslu úr atvinnumennsku og Gísli er 21 árs og vonandi búinn að sigrast á sínum meiðslum.

Gísli glímdi við erfið axlarmeiðsli á sínu fyrsta tímabili með SC Magdeburg og Ómar Ingi er nýkominn til félagsins frá Aalborg Håndbold í Danmörku.

Í leiknum í gær þá skoruðu þeir saman fimm mörk. Ómar Ingi þrjú og Gísli Þorgeir tvö.

Það var þó samvinna þeirra í 22. marki liðsins sem var einn af hápunktum leiksins.

Twitter-síða EHF Evrópudeildarinnar tók markið sérstaklega fyrir og sagði að þarna hafi Icelandic Airways verið á ferðinni.

Ómar Ingi sá um undirbúninginn en Gísli las hann vel og skoraði sirkusmark eftir flotta sendingu. Strákarnir eru líklegir til að vera báðir í íslenska landsliðshópnum á HM í Egyptalandi í janúar og það væri gaman ef þeir myndu líka ná svona vel saman í íslenska landsliðsbúningnum.

Það má sjá þetta séríslenska sirkusmark hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×