Barnaníð á netinu vaxandi vandamál í Covid

Mynd frá Barnahúsi. Það sinnir sinnir málefnum barna sem grunur …
Mynd frá Barnahúsi. Það sinnir sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnaníð á netinu er vaxandi vandamál í Covid-19, sérstaklega í Evrópu að sögn Ævars Pálma Pálmasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er hugsanlega sú að svokallaðir farand-kynferðisafbrotamenn (e. travelling sex offenders) geti ekki ferðast á milli landa og brotið á börnum eins og þeir eru vanir. 

Europol hefur vakið athygli á því að kynferðisafbrotamenn reyni nú að ná til barna í gegnum netið sem aldrei fyrr og hefur myndskeiðum úr vefmyndavélum sem finnast í söfnum barnaníðinga fjölgað verulega. 

Ævar segir að málin séu flókin að því leytinu til að gerendurnir reyni yfirleitt að hylja slóð sína. 

„Í Evrópu þar sem víða er algjört útgöngubann virðist það valda því að traffíkin á netinu verði meiri,“ segir Ævar í samtali við mbl.is. 

Heimsækja lönd þar sem þeir geta komist upp með brot

Farand-kynferðisafbrotamenn eru þeir kallaðir sem ferðast hreinlega á milli landa þar sem auðvelt er fyrir þá að komast upp með kynferðisbrot, meðal annars gegn börnum. Nú er erfitt fyrir þá að ferðast á milli landa vegna ferðatakmarkana sem eru tilkomnar vegna Covid-19. 

„Þar af leiðandi eykst eftirspurnin kannski frekar eftir barnaníði á netinu. Það virðist vera að gerast sérstaklega hérna í Evrópu,“ segir Ævar. 

En barnaníð á netinu hefur ekki einungis vaxið í Covid heldur hefur það einnig vaxið í takt við internetið þó sérstaklega mikill vöxtur hafi orðið í heimsfaraldrinum.

„Aðgengi manna að efni er bara svo miklu meira en það var og þar af leiðandi dreifingin líka,“ segir Ævar. 

„Heimur barna breyttist í faraldrinum og hefur færst úr hinum …
„Heimur barna breyttist í faraldrinum og hefur færst úr hinum raunverulega heimi og yfir á netið. Kynferðisafbrotamenn hafa séð þessa þróun sem freistandi tækifæri til að ná til breiðari hóps mögulegra þolenda,“ segir í samantekt um skýrslu Europol. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elta öll rafræn spor en það dugir ekki alltaf

Lögreglan kemst fyrst og fremst á snoðir um afbrotin út frá ábendingum.

„Menn reyna að hylja slóð sína eins og flestir brotamenn reyna að gera, reyna að fremja glæpinn með leynd. Við komumst á sporið út frá ábendingum til dæmis frá fjölskyldumeðlimum eða erlendum lögreglumönnum, þar sem vísbendingar hafa kannski komið fram í rannsókn hjá þeim eða eitthvað þess háttar, eða þá í rannsókn hér þar sem við erum að rannsaka muni sem við höfum haldlagt og komist þannig á snoðir um eitthvað þessu tengt.“

Spurður hvort málin séu að verða flóknari segir Ævar að þau séu að vissu leyti að verða það. 

„Þegar kemur að málum á netinu getur alltaf verið svolítið erfitt að rekja slóðina vegna þess að gerendur í þessum brotum nýta í raun öll tækifæri til þess að fela slóðina. [..] Við eltum öll rafræn spor eins og við mögulega getum út frá ábendingum,“ segir Ævar. 

Stundum er um sáralítil gögn að ræða sem mögulegt er að byggja rannsókn á, að sögn Ævars. „Þá verðum við einfaldlega að hætta rannsókn.“

Barnaníð á netinu hefur ekki einungis vaxið í Covid heldur …
Barnaníð á netinu hefur ekki einungis vaxið í Covid heldur hefur það vaxið í takt við internetið. AFP

Meiri tölvunotkun áhættuþáttur

Europol er sífellt með mál af þessum toga til rannsóknar. Skýrsla sem Europol birti í sumar varpar ljósi á þá aukningu sem hefur orðið á miðlun barnaníðsefnis á netinu. 

„Heimur barna breyttist í faraldrinum og hefur færst úr hinum raunverulega heimi og yfir á netið. Kynferðisafbrotamenn hafa séð þessa þróun sem freistandi tækifæri til að ná til breiðari hóps mögulegra þolenda,“ segir í samantekt um skýrsluna.

Þá hefur Europol vakið athygli foreldra að því að meiri tölvunotkun barna í kórónuveirufaraldrinum auki líkur á því að kynferðisafbrotamenn reyni að ná til þeirra í gegnum internetið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert