Bjartsýni íslenskra fjármálastjóra hefur aukist mikið frá því í vor og er nú ein sú mesta í Evrópu samkvæmt könnun Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins sem framkvæmd var í september. Flestir vænta aukinnar veltu og rekstrarhagnaðar og margir ráðninga og aukinna fjárfestinga. Efnahagsleg óvissa hefur dregist verulega saman og staðan á fjármálamörkuðum er talin góð.

Lovísa Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte, segir það vissulega hafa verið viðbúið að niðurstöðurnar nú yrðu betri en síðast, en það sé þó alltaf ánægjulegt að sjá þróunina raungerast í svörunum, auk þess sem niðurstaðan sé á margan hátt jafnvel betri en búast hafi mátt við.

Tekjur
Tekjur

Virðumst vera komin út úr faraldrinum
„Stóra niðurstaðan er að bjartsýni er að mælast mjög mikil. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta sé mesta bjartsýni sem við höfum mælt síðan við hófum þessa könnun 2014. Síðustu þrjár kannanir hafa allar verið svolítið litaðar af faraldrinum, en af þessum niðurstöðum að dæma virðumst við vera komin aðeins út úr honum hvað rekstur fyrirtækja varðar.“

EBITDA
EBITDA

Í könnuninni er spurt um horfur á fjórum lykilþáttum í rekstri viðkomandi fyrirtækja: tekjum, rekstrarhagnaði (EBITDA), fjárfestingum og starfsmannafjölda. Bæði hlutfall sem býst við aukningu og nettóhlutfall – jákvæðir umfram neikvæða – hefur aukist á öllum fjórum sviðum frá því í vor, og raunar samfellt frá því í fyrravor.

EBITDA og óvissa mun jákvæðari en í Evrópu
„Það er sérstaklega áhugavert að sjá tölurnar fyrir EBITDA. Þar eru niðurstöðurnar fyrir Ísland töluvert bjartari en við erum að mæla í Evrópu,“ segir Lovísa. Nettóhlutfallið hér mældist 66%, en aðeins 20% að meðaltali í Evrópu. „Hinir liðirnir haldast meira í hendur við Evrópu.“

Óvissa
Óvissa

Annar mælikvarði sem batnar til muna milli mælinga er óvissa. Aðeins 23% telja sig nú standa frammi fyrir mikilli eða mjög mikilli efnahagslegri óvissu samanborið við 40% í vor, og um 60% í báðum könnunum í fyrra. Aftur er munurinn gríðarlegur miðað við Evrópu, hvar 64% telja sig standa frammi fyrir meiri óvissu en í eðlilegu árferði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .