Rauði krossinn opnar fjórða sóttkvíarhótelið

Nýja sóttkvíarhótelið opnar á Hótel Kletti.
Nýja sóttkvíarhótelið opnar á Hótel Kletti. Ljósmynd/Hótel Klettur

Rauði krossinn opnar sóttkvíarhótel á Hótel Kletti við Mjölnisholt í Reykjavík í dag. Verður það þriðja sóttkvíarhótelið í Reykjavík og það fjórða á landinu en fyrir hefur Rauði krossinn umsjón með sóttkvíarhótelum á Fosshótel Reykjavík, Hótel Stormi og Hótel Hallormsstaðaskógi. Þá hefur Rauði krossinn einnig umsjón með farsóttarhúsum við Rauðarárstíg líkt og verið hefur síðastliðið ár.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. 

Þar segir að þeim farþegum sem koma til landsins og ýmist þurfa eða kjósa að verja sinni sóttkví á sóttkvíarhóteli hafi farið nokkuð fjölgandi að undanförnu.

84 herbergi bætast við

„Í nótt voru um 400 gestir á sóttkvíarhótelunum tveimur í Reykjavík og einungis örfá herbergi laus þar sem stendur. Í dag koma átta farþegavélar til landsins, sú fyrsta lenti í morgun og sjö eru væntanlegar síðar í dag, þar af tvær frá hááhættusvæðum með nýgengi smita yfir 700,“ segir í tilkynningunni og jafnframt: 

„Með tilkomu sóttkvíarhótelsins á Hótel Kletti bætast 84 herbergi við það framboð og Rauði krossinn þar með betur í stakk búinn til að taka á móti þeim gestafjölda sem búast má við í dag og næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert