Opnunaráætlun Noregs kynnt

Tígrisdýrið á torginu við aðalbrautarstöðina í Ósló hefur staðið vaktina …
Tígrisdýrið á torginu við aðalbrautarstöðina í Ósló hefur staðið vaktina gegnum allan kórónufaraldurinn og gott betur. Norsk stjórnvöld boða nú áætlun um opnun samfélagsins sem gerð verður heyrum kunn á miðvikudaginn, 7. apríl. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jorge Láscar

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hyggst kynna áætlun norskra stjórnvalda um opnun samfélagsins á miðvikudaginn, 7. apríl. Þetta staðfesti skrifstofa forsætisráðherra við norska Dagbladet í gær.

Mun Solberg fyrst kynna áætlunina í Stórþinginu að morgni dags áður en hún ávarpar þjóðina síðdegis. Upphaflega var gert ráð fyrir að ráðherra legði spilin á borðið fyrir páska, en úr því ekki varð af því verður áætlunin kynnt í nákvæmari atriðum en efni stóðu til á miðvikudag, skrifar Dagbladet.

„Slíkt gæti auðveldlega gefið fólki ranga hugmynd,“ sagði Solberg þegar hún rökstuddi hvers vegna ákveðið hefði verið að fresta kynningunni fram yfir páska, „erfiðara hefði verið að ná til fólks. Við vonum að staðan verði þannig eftir páska að við höfum fyllri sýn yfir stöðuna,“ hélt hún áfram og vísaði til þess að margir hefðu tekið sér frí frá vinnu alla síðustu viku og haldið út á land í ferðalög og sumarbústaði.

Núgildandi reglur til 14. apríl

Enn fremur greina Dagbladet og fleiri norskir fjölmiðlar frá því, að tilkynning Bent Høie heilbrigðisráðherra frá því í gær, um að sóttvarnareglurnar sem nú gilda fyrir allan Noreg skuli gilda til 14. apríl í stað þess 12., hafi engin áhrif á áætlanir um opnun samfélagsins.

Høie rökstuddi ákvörðun sína um tveggja daga framlengingu með þeirri óvissu sem ríkti um  stöðu mála þegar fólk sneri til síns heima úr sumarbústöðum og öðrum ferðalögum eftir páskafríið.

Þá er stutt síðan Raymond Johansen, borgarráðsformaður í Ósló, boðaði opnunaráætlun fyrir Ósló sem sætt hefur æ ríkari takmörkunum á daglegu lífi allar götur síðan 9. nóvember í fyrra, enda skórinn kreppt mest þar eftir að stökkbreytt afbrigði veirunnar bárust til Noregs.

Bólusetningar þokast áfram

Kvað Johansen meginforsendur opnunaráætlunar höfuðborgarinnar vera áframhaldandi skimanir fyrir veirunni og bólusetningar, en nú er þess skammt að bíða að allir Óslóarbúar, eldri en 85 ára, verði fullbólusettir, það er hafi fengið báðar sprauturnar auk þess sem bólusetning aldurshópsins 74 – 85 ára er langt á veg kominn. Þá tekur við bólusetning 65 – 74 ára sem að sögn Johansen eru 50.000 íbúar borgarinnar.

Um miðnætti að norskum tíma í gærkvöld, páskadagskvöld, greindi dagblaðið VG frá því að 574 ný smit hefðu greinst síðasta sólarhringinn, sem er 231 tilfelli undir meðaltali síðustu sjö daga, sem er 805 smit. Alla jafna smitast þó færri um helgar en á virkum dögum. Samkvæmt tölum blaðsins fjölgar smitum nú í 33 norskum sveitarfélögum.

Dagbladet

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert