Upplifði sig eins og geimveru

Sara Rós Kristinsdóttir, félagsliði, markþjálfi og stofnandi Lífsstefnu, segist hafa upplifað sig eins og geimveru í æsku en hún átti erfitt með nám og glímdi í kjölfarið við brotna sjálfsímynd sem varð til þess að hún þróaði með sér kvíða, þunglyndi og átröskun á unglingsaldri. Hún greindist þó með ADHD og einhverfu eftir þrítugt sem skýrði ótrúlega margt en hún segir að hún hefði þurft mun meiri stuðning en hún fékk í æsku.

Ákveðin útskúfun

„Það var ekki eins mikil vitneskja og það var svolítið verið að skamma mann. Ef maður var ekki að vinna í tímum var manni svolítið hent út. Ég skil alveg að þetta fólk vissi bara ekki betur. En þetta er ákveðin útskúfun. Þetta er það. Maður upplifir það, sérstaklega ef maður er viðkvæmur,“ segir Sara Rós í Dagmálum, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins. 

Hún byrjaði í mikilli sjálfsvinnu 16 ára, eftir að hún hafði komist inn á BUGL og fengið meiri stuðning, sem hjálpaði henni mikið og fór að skapa sína eigin hamingju. Hún fann í framhaldinu, ástríðu sína, sem er að vinna með fólki og fræða það, sem hún gerir í dag í gegnum Lífsstefnu á samfélagsmiðlum þar sem hún deilir fræðslumolum um geðheilbrigði, ADHD og einhverfu með yfir 5.000 fylgjendum. 

Stuðningurinn skiptir máli

„Ég hefði þurft miklu meiri stuðning. Ég sé það svo skýrt í dag,“ segir Sara. 

„Foreldrar mínir voru ekki að hugsa að hún gæti verið með ADHD. Þau segja í dag: Við vissum ekki hvað það var,“ segir Sara en hún segir að það fá greiningarnar loks á fullorðinsaldri hafi skipt hana meira máli en hún bjóst við eftir alla sjálfsvinnuna.

Snýst ekki um stimpla

„Ef fólk er að hugsa þetta þá myndi ég alltaf mæla með að fara í greiningu,“ segir Sara.

„Ég hef heyrt hluti eins og: Af hverju þarf maður að setja stimpil á þetta? En það er bara ekki rétt, þetta snýst ekki neitt um það. Þetta snýst um sjálfsþekkingu,“ segir Sara sem segist hafa tekið meira tillit til sín eftir að hafa uppgötvað að hún væri einhverf. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert