Sakaður um kynferðislega áreitni

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AFP

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni af tveimur fyrrum starfsmönnum sínum.

Charlotte Bennett, sem var ráðgjafi Cuomo á sviði heilbrigðismála fram í nóvember, segir við New York Times að Cuomo hafi áreitt hana á síðasta ári. 

Lindsey Boylan, sem einnig er fyrrum ráðgjafi demókratans, hefur áður sakað Cuomo um áreitni.

Bennett, sem er 25 ára, segir að áreitnin hafi byrjað í maí síðastliðnum, þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst í New York-ríki. Hún segir Cuomo hafa spurt hana óviðeigandi spurningar um einkalíf sitt þegar þau voru ein á skrifstofu hans, meðal annars hvort hún myndi íhuga að stunda kynmök með eldri manni. Þá segir Bennett að Cuomo hafi sjálfur sagst hafa áhuga á að eiga í sambandi við konur á þrítugsaldri. 

Cuomo, 63 ára, sagði í yfirlýsingu á laugardag að hann hefði talið sig vera leiðbeinanda hennar og að hann hefði ekki haft uppi neinar umleitanir um samband þeirra á milli. Hann segir að ásakanirnar verði rannsakaðar sérstaklega og biðlar til íbúa New York um að draga engar ályktanir fyrr en að rannsókninni lokinni. 

Boylan steig fram og sakaði Cuomo um áreitni gagnvart henni á miðvikudag. Hún segir áreitnina hafa átt sér stað við nokkur tilefni á tímabilinu 2016 til 2018 og segir hún Cuomo meðal annars hafa kysst hana á munninn án hennar samþykkis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert