18 ára strákur með tvennu í sigri Bæjara

Jamal Musiala fagnar öðru marka sinna í leiknum í dag.
Jamal Musiala fagnar öðru marka sinna í leiknum í dag. AFP

Jamal Musiala átti frábæran leik í liði Bayern München þegar það vann nauman 3:2-útisigur gegn Wolfsburg í hörkuleik í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag.

Musiala, sem er aðeins 18 ára gamall og lék sinn fyrsta landsleik fyrir Þýskaland gegn Íslandi í undankeppni HM 2022 í síðasta mánuði, skoraði bæði mörk sín í fyrri hálfleik.

Hann kom Bæjurum í 1:0 eftir stundarfjórðungs leik og Eric Maxim Choupo-Moting tvöfaldaði forystuna á 24. mínútu.

Wout Weghorst minnkaði muninn fyrir Wolfsburg á 35. mínútu en Musiala svaraði með öðru marki sínu aðeins tveimur mínútum síðar.

Staðan 3:1 í hálfleik.

Maximililian Philipp minnkaði muninn að nýju á 54. mínútu en Bayern hélt út og vann góðan sigur, sem styrkir stöðu liðsins á toppi þýsku 1. deildarinnar.

RB Leipzig missteig sig enda í gær með 0:0-jafntefli gegn Hoffenheim og nú er Bayern með sjö stiga forskot þegar aðeins fimm leikir eru eftir í deildinni.

Alfreð Finnbogason kom inn á sem varamaður á 65. mínútu í liði Augsburg sem tók á móti Arminia Bielefeld í deildinni og lék þar með loks með liðinu á ný eftir að hafa misst af síðustu tíu leikjum vegna meiðsla.

Lauk leiknum með markalausu jafntefli og Augsburg er í 11. sæti af átján liðum þegar liðið á fimm leiki eftir. Enn eru aðeins sjö stig í umspilssæti þannig að Alfreð og félagar eru ekki öruggir enn með áframhaldandi sæti í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert