Netnotkun Íslendinga eykst

Síminn og Vodafone voru stærstu fjarskiptafyrirtækin í fyrra.
Síminn og Vodafone voru stærstu fjarskiptafyrirtækin í fyrra. mbl.is/Samsett mynd

Netnotkun Íslendinga á farsímaneti jókst um tæplega helming á milli áranna 2019 og 2020, samkvæmt nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunnar. Einnig jókst niðurhal Íslendinga á föstum tengingum um tæplega þriðjung. Sá fjöldi mínútna sem Íslendingar verja í símtölum jókst einnig.

Póst- og fjarskiptastofnun gaf nýlega út tölfræðiskýrslu um íslenska fjarskiptamarkaðinn. Skýrslan fer yfir síma- og netnotkun Íslendinga sem og veltu og fjárfestingar á farskiptamarkaði. Hún inniheldur tölulegar upplýsingar um helstu þætti á markaðnum og samanburð við stöðuna á árunum á undan.

Fjöldi ljósleiðara eykst

Mikil aukning var í ljósleiðaratengingum á netið en samhliða því var einnig sambærileg fækkun í xDSL-kopartengingum. Heildarfjöldi nettenginga á Íslandi stóð því meira eða minna í stað en hlutfall ljósleiðaratenginga á Íslandi var rúmlega 68% allra tenginga.

Heildartekjur fjarskiptafyrirtækja á árinu 2020 jukust um einungis 0,8 prósent, þrátt fyrir að Íslendingar treystu á fjarskiptatæknina í meira mæli vegna kórónuveirufaraldursins. Síminn og Vodafone voru stærstu fyrirtækin á fjarskiptamarkaðinum í fyrra. Voru þau m.a. með um 91% hlutdeild fyrir heimasíma og 74% hlutdeild í fjölda nettenginga í lok árs 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert