Tók upp þráðinn úr Safamýrinni

Guðmundur Magnússon skoraði þrennu í kvöld.
Guðmundur Magnússon skoraði þrennu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Það var mjög gott að kveðja Safamýrina með tveimur mörkum og taka svo á móti Úlfarsárdalnum með þremur mörkum,“ segir Guðmundur Magnússon, sem átti frábæran leik þegar Framarar tóku á móti Eyjamönnum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld, en liðin skildu þar jöfn með 3:3 jafntefli. 

„Þetta er bara gervigras og bolti,“ segir Guðmundur um formið sitt í leikjunum tveimur og bætir við að hann sé með mikið sjálfstraust. Þá hafi fólk greinilega verið mjög tilbúið til að mæta á nýja heimavöllinn. „Þetta voru geggjaðir áhorfendur, geggjuð stemmning og allt fullkomið. Þetta verður ekki mikið betra.“

Um leikinn segir Guðmundur að hann hafi verið svipaður og aðrir leikir Fram í sumar, þar sem þeir bæði skori mikið af mörkum og fái mikið af þeim á sig. „Það er bara ávísun á skemmtun, þannig að fólk verður að mæta á völlinn.“

Það var gríðarleg stemmning hjá heimamönnum í Fram á fyrsta …
Það var gríðarleg stemmning hjá heimamönnum í Fram á fyrsta heimaleiknum þeirra í Úlfarsárdal. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Guðmundur segir um leikinn sjálfan að það hafi verið nokkur spenna í hópnum, þannig að kannski hafi menn ekki mætt til leiks strax á fyrstu mínútu, þegar Eyjamenn komust yfir. „En svo vinnum við okkur inn í leikinn og náum forystunni, og hefðum alveg getað skorað fjórða og fimmta markið, en við sofnuðum á verðinum. Eyjamenn voru grimmari á seinni boltanum og náðu að refsa okkur fyrir það.“

-Þú skoraðir tvö mörk síðast, þrjú mörk í dag, verða þau fjögur í næsta leik? „Ég ætla bara að njóta þessa að spila fótbolta. Ég er á besta aldri og í mínu besta formi. Það er stutt í að þetta verði búið kannski, þannig að ég ætla bara að njóta þess að spila í efstu deild,“ segir Guðmundur að lokum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert