Fjórir á gjörgæslu vegna Covid

Átta sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19, þar af eitt barn. Fjórir af þeim sem liggja á spítala eru á gjörgæslu, tveir þeirra í öndunarvél. Þetta kemur fram á vef Landspítala.

Í gær lágu sjö á spítala vegna Covid-19, þar af þrír á gjörgæslu, svo einn hefur bæst við á spítala á milli daga, þar af einn á gjörgæslu.

„Nú eru 352 sjúklingar, þar af 128 börn, í COVID göngudeild spítalans. Enginn er metinn rauður en 6 gulir og þurfa nánara eftirlit,“ segir á vef Landspítala. 

Spítalinn er nú á óvissustigi. Það er fyrsta af þremur viðbragðsstigum Landspítala.

Skilgreining óvissustigs samkvæmt viðbragðsáætlun Landspítala er eftirfarandi: Viðbúnaður vegna yfirvofandi eða orðins atburðar. Ef dagleg starfsemi ræður við atburðinn, upplýsingar um atburð eru óljósar eða ekki nægar til að virkja áætlun til fulls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert