Landsbankinn hagnaðist um 17,0 milljarða króna eftir skatta í fyrra, samanborið við 28,9 milljarða króna árið 2021. Arðsemi eigin fjár lækkaði úr 10,8% í 6,3% á milli ára. Bankinn birti ársuppgjör í dag.

Bankaráð Landsbankans mun leggja til við aðalfund þann 23. mars 2023 að greiddir 8,5 milljarðar króna í arð til ríkissjóðs egna rekstrarársins 2022. Arðgreiðslan samsvarar 50% af hagnaði samstæðu bankans á árinu 2022.

Rekstrartekjur bankans drógust saman um 14,6% milli ára og námu 53,3 milljörðum króna. Rekstrargjöld voru nær óbreytt í 25,9 milljörðum. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,5 milljarðar króna samanborið við 14,8 milljarða árið áður. Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á árinu 2022 var 46,8% samanborið við 43,2% árið 2021.

Virði eignarhlutar í Eyri lækkað um 10,5 milljarða

Hreinar vaxtatekjur bankans jukust um 19% á milli ára og námu 46,5 milljörðum. Hreinar þjónustutekjur jukust um 12% og námu 10,6 milljörðum. Aðrar rekstrartekjur voru hins vegar neikvæðar um 3,8 milljarða en til samanburðar voru þær jákvæðar um 13,9 milljarða króna árið 2021.

Hreint tap af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði nam nærri 8 milljörðum króna samanborið við tæplega 6 milljarða hagnað árið áður. Vegur þar þyngst lækkun á gangvirði óskráðra eignarhluta bankans í Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels, um 10,5 milljarða króna. Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 2,5 milljarða króna á árinu 2022.

Heildareignir Landsbankans jukust um 57,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2022 alls 1.787 milljörðum króna. Eigið fé var 279,1 milljarður og eiginfjárhlutfall því 24,7%.

„Grunnrekstur bankans gekk vel á krefjandi ári en lækkun á hlutabréfaeignum dregur afkomuna niður. Það er ánægjulegt að útlán til fyrirtækja jukust talsvert og það var áfram ágæt aukning í íbúðalánum þó hægt hafi á síðari hluta ársins,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

„Viðskiptavinum bankans hélt áfram að fjölga, tekjur af fjölbreyttri starfsemi bankans jukust og rekstrarkostnaður var stöðugur. Innlán jukust töluvert og góður árangur við fjármögnun bankans á árinu 2021 gerði okkur kleift að bíða af okkur verstu sveiflurnar á fjármálamörkuðum á árinu 2022.“