Vildi hlutlæga kennslu um fasisma og nasisma

Inngangurinn að útrýmingarbúðunum í Auschwitz.
Inngangurinn að útrýmingarbúðunum í Auschwitz. AFP

Þingnefnd öldungadeildar Indiana-ríkis í Bandaríkjunum fundaði á miðvikudaginn í síðustu viku vegna lagafrumvarps um bann við „efni sem getur valdið sundrungu“ í skólastofum. Þingmaður repúblikana, Scott Baldwin, sagði á fundinum að kennarar ættu í kennslustundum sínum að vera hlutlægir þegar fjallað er um fasisma og nasisma.

„Marxismi, nasismi, fasismi...Ég hef ekkert við það að athuga að menntakerfið veiti leiðbeiningar um tilvist þessara „isma“,“ sagði Baldwin, sem er annar höfunda frumvarpsins. „Ég tel að við höfum gengið of langt í því að taka afstöðu....Við þurfum að vera hlutlæg.“ 

Dró ummælin til baka

Baldwin dró þessi ummæli til baka daginn á fimmtudeginum eftir gagnrýni í hans garð. Í tölvupósti til Indianapolis Star, sagðist Baldwin hafa einbeitt sér að „stóru myndinni“ sem snýst um að koma í veg fyrir að kennarar segi nemendum „hvað þeim eigi að finnast um stjórnmál“, að því er Washington Post greindi frá.

„Nasismi, Marxismi og fasismi eru blettur á mannkynssögunni og þannig á að líta á það og mér mistókst að koma því nógu vel til skila í ummælum mínum á fundinum,“ sagði hann. „Mér finnst að börn eigi að læra um þessa hræðilegu atburði í sögunni þannig að mannkynið lendi ekki í slíku aftur.“

Mismunandi sjónarhorn á „umdeildum“ málum

Þrír mánuðir eru liðnir síðan skólastjórnandi í norðurhluta Texas-ríkis baðst afsökunar á því að hafa beðið kennara um að útvega nemendum lestrarefni með „andstæðum“ sjónarhornum“ um helförina. Ummæli hennar komu eftir að ný lög voru samþykkt um að kennarar greini nemendum frá mismunandi sjónarhornum þegar kemur að umfjöllunarefni „sem eru umdeild um þessar mundir“.

Í næsta mánuði á eftir varð hlutlægni í kennslustofum lykilmálefni í kosningabaráttunni um nýjan ríkisstjóra í Virginíu. Sigurvegarinn, repúblikaninn Glenn Youngkin, gagnrýndi andstæðing sinn fyrir að vilja halda skoðunum foreldra fyrir utan kennslustofurnar.

Foreldrar endurskoði námsefnið

Ummæli Baldwin um nasisma voru viðbrögð hans við áhyggjum menntaskólakennara út af lagafrumvarpinu.

Frumvarpinu svipar til löggjafar sem var annað hvort lögð fram eða samþykkt í yfir 20 ríkjum Bandaríkjanna um bann við gagnrýnni kynþátta-kenningu, námsefnis þar sem fjallað er um hvernig stefnur og lög ýta undir kerfisbundinn rasisma.

Verði frumvarpið að lögum þyrftu skólar í Indiana að stofna nefndir til að gera foreldum kleift að fara yfir námsefni kennara og haft áhrif á hvaða efni er kennt hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert