Var frammi í ungir á móti gömlum

Markaskorari Víkinga, Nikolaj Hansen, sækir að Sebastian Hedlund í kvöld.
Markaskorari Víkinga, Nikolaj Hansen, sækir að Sebastian Hedlund í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eins svekkjandi og það var að fá jöfnunarmarkið á sig á móti Fylki í síðasta leik þá var þessi tilfinning tvisvar sinnum betri,“ sagði kátur Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins við Val í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Nikolaj Hansen jafnaði fyrir Víking í uppbótartíma. 

„Þetta var sterkt á móti Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli og þetta heldur Íslandsmótinu gangandi. Mér fannst við eiga þetta skilið. Á löngum köflum í leiknum var þetta sterkur sigur. Auðvitað komu leikir þar sem Valur var betri en við en þeir voru ekki mikið að opna okkur. Markið þeirra kom eftir einstaklingsgæði hjá Kaj Leo og það var frábært mark.

Í lokin hendum við öllum fram og reynum að skapa usla með löngum sendingum. Það er þroskamerki á liðinu. Þetta er leikur sem við hefðum tapað tvö síðustu ár og það var mjög sterkt að koma til baka. Mér fannst þetta liggja rosalega í loftinu, við vorum að fá dauðafærin. Við vorum á sama tíma hræddir um að Valur myndi klára þetta 2:0 því þeir fengu möguleikana til þess,“ sagði Arnar. 

Varamenn Víkings komu með mikinn kraft í leikinn og áttu stóran þátt í að Fossvogsliðið náði í stig. „Þeir eiga að vera ósáttir með að byrja á bekknum. Varamennirnir komu inn á gegn Fylki og breyttu leiknum og varamennirnir í dag gerðu það líka. Þetta þurfa góð lið að hafa.“

Einn varamannanna var varnarmaðurinn Sölvi Geir Ottesen en hann fór í framlínuna á lokakaflanum og skapaði usla í vörn Víkings. 

„Hann var frammi í ungir á móti gömlum í gær og var helvíti góður. Ég sagði við hann að hann mætti koma inn á sem senter en ég held það hafi verið meira sagt í gríni í gær. Hann er sterkur skallamaður og tekur mikið til sín. Það er markanef í honum. Tottenham gerði þetta líka á móti Ajax í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á sínum tíma,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert