Bjarni fór á kostum í bikarsigri

Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með FH á þarsíðasta tímabili.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson í leik með FH á þarsíðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór fyrir sínum mönnum í Skövde í síðari leik liðsins gegn Hallby í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í handknattleik karla í kvöld.

Skövde vann að lokum öruggan 33:26 sigur á heimavelli eftir að hafa unnið fyrri leikinn fyrir tveimur vikum með fjórum mörkum.

Bjarni Ófeigur skoraði flest mörk allra í leiknum í kvöld, átta talsins, á meðan liðsfélagi hans Viktor Hallén skoraði sjö mörk. Gustaf Wedberg hjá Hallby skoraði einnig sjö mörk.

Skövde er þar með komið örugglega áfram í átta liða úrslitin.

Ekki er búið að draga í þau og því ekki enn ljóst hvaða lið verður mótherji Skövde en Helsingborg, Amo, Sävehof, Lugi, Alingsås, Kristianstad og Guif verða öll í pottinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert