Mennirnir á leið niður eftir snjóflóðið

Björgunarsveitir og lögregla við Skessuhorn.
Björgunarsveitir og lögregla við Skessuhorn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennirnir tveir sem lentu í snjóflóði í norðurhlíð Skessuhorns í Borgarfirði í dag eru á niðurleið í fylgd björgunarsveita. Þeir finna til einhverra eymsla, en hlúð var að þeim á staðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Flóðið féll á mennina á fjórða tímanum, en þeir komust sjálfir úr því og gátu kallað eftir aðstoð. Höfðu þeir lent þannig að þeir töldu sig ekki komast niður af sjálfsdáðum, en mikil hálka og harður snjór er á vettvangi.

Björgunarfólk úr Borgarfirði og af Akranesi var kallað út, en það kom að mönnunum rétt upp úr klukkan 17 og var þeim fylgt niður ásamt björgunarsveitarfólki á sexhjóli og verða svo fluttir með bíl niður á veg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert