Segir lögbrot að forgangsraða Covid-málum

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins. Myndin er úr safni, en borgarstjórnarfundur …
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins. Myndin er úr safni, en borgarstjórnarfundur dagsins var fjarfundur. mbl.is/Hari

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sakar forseta borgarstjórnar um að brjóta sveitarstjórnarlög og stjórnsýslulög með tilmælum sínum um að formenn ráða og nefna borgarinnar endurskipuleggi fundardagskrá svo að aðgerðir borgarinnar vegna neyðarstigs almannavarna geti fengið forgang. Þetta sagði Vigdís á fundi borgarstjórnar sem nú stendur yfir.

Tilmælin sem Vigdís vísar til komu fram í bréfi Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, forseta borgarráðs, til borgarfulltrúa 1. nóvember, degi eftir að kynnt var um hertar sóttvarnaaðgerðir — þær ströngustu frá upphafi faraldursins. Segir þar að „aðgerðir borgarinnar á neyðarstigi [muni] hafa algjörnan forgang og önnur mál [muni] þurfa að bíða“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var til andsvara. Hann benti á að um tilmæli væri að ræða, en ekki bönn.

„Þessi tilmæli byggja á almennri skynsemi og þeirri staðreynd að á vissum tímum í faraldrinum þegar þarf að bregðast við breyttum reglum og tilmælum almannavarna um sóttvarnaatriði þá þurfa málefni sem snúa að viðkvæmustu hópum samfélagsins og verkefni sem lúta að skólum og frístundamálum að hafa ákveðinn forgang hjá stjórnendum,“ sagði Dagur.

Með tilmælunum hafi verið höfðað til þess að kjörnir fulltrúar sýndu því tillit og veittu svigrúm til að hægt væri að koma nauðsynlegum hlutum í verk. Dagur hrósaði jafnframt kjörnum fulltrúum og fulltrúum í nefndum og ráðum fyrir þá samstöðu sem þeir hefðu sýnt. „Hún skiptir miklu máli fyrir starfsfólkið og þá sem þiggja þjónustu borgarinnar,“ sagði Dagur.

Vald framselt neyðarstjórn

Vigdís fékk þá orðið að nýju. Sagðist hún alfarið ósammála borgarstjóra. Þá hefðu völd verið framseld til neyðarstjórnar borgarinnar, sem í sitja meðal annars borgarstjóri, sviðsstjórar borgarinnar og framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Ekki kom þó fram hvaða vald hún teldi framselt.

Neyðarstjórnin var virkjuð í mars vegna faraldursins og hefur fundað reglulega síðan í samstarfi við aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins, neyðarstjórnir annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og almannavarnir.

Dagur benti á að skipulag neyðarstjórna væri hluti af almannavarnakerfi borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins. „Það felur ekki í sér valdaframsal annað en það sem felst í samþykktu erindisbréfi neyðarstjórnar og fylgir viðbragðsáætlunum sem einnig hafa verið staðfestar í neyðarstjórnum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert