Elías Már skoraði í tapi

Elías Már Ómarsson í leik með Excelsior fyrr á tímabilinu.
Elías Már Ómarsson í leik með Excelsior fyrr á tímabilinu. Ljósmynd/Excelsior

Elías Már Ómarsson lék allan leikinn og skoraði í 2:7 stórtapi Excelsior gegn Cambuur í hollensku B-deildinni í knattspyrnu  í dag.

Elías Már hafði ekki skorað í deildinni síðan 23. janúar síðastliðinn eftir að hafa raðað inn mörkum fyrri hluta tímabils og markið í dag því kærkomið fyrir hann þrátt fyrir tap.

Excelsior komst tvisvar yfir í leiknum, fyrst á 6. mínútu og eftir að Cambuur jafnaði strax á 14. mínútu kom Elías Már liðinu yfir á ný snemma í síðari hálfleiknum, á 52. mínútu.

Eftir það settu heimamenn í Cambuur í fluggír og skoruðu sex mörk á síðasta hálftímanum, þar sem Robert Mühren og Ragnar Oratmangoen skoruðu hvor sína þrennuna.

Lokatölur því 2:7. Topplið Cambuur náði með sigrinum aftur níu stiga forskoti á toppi hollensku B-deildarinnar.

Excelsior siglir áfram lygnan sjó í 11. sæti deildarinnar og er nokkuð langt frá umspilssæti og enn lengra frá neðstu sætunum.

Elías Már hefur þrátt fyrir markaþurrð að undanförnu átt frábært tímabil með Excelsior, þar sem hann hefur skorað 22 mörk í 35 leikjum í öllum keppnum, þar af 19 í 31 leik í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert