Verðum að virða Pólland

Didier Deschamps á hliðarlínunni í 0:1 tapi Frakklands gegn Túnis …
Didier Deschamps á hliðarlínunni í 0:1 tapi Frakklands gegn Túnis í lokaleik riðilsins. AFP/Franck Fife

Didier Deschamps, þjálfari franska karlalandsliðsins, segir sitt lið þurfa að bera virðingu fyrir því sem Pólverjar gera áður en þjóðirnar mætast í 16-liða úrslitum á heimsmeistaramóti karla í fótbolta í dag. 

Frakkar tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum í öðrum leik riðlakeppninnar með 2:1 sigri á Danmörku. Fyrir lokaleik D-riðilsins gerði Deschamps níu breytingar á liði sínu sem tapaði 0:1 fyrir Túnis. 

Pólverjar voru á tæpasta vaði og komust í 16-liða úrslitin á markamun en bæði Pólland og Mexíkó voru með fjögur stig í öðru og þriðja sæti C-riðilsins. 

„Allir leikir eru erfiðir, öll liðin eru góð og vel skipulögð. Leikmennirnir spila allir í góðum deildum. 

Þetta lið hefur þurft að verjast í fyrstu þremur leikjunum. Það verst mikið og leikmennirnir verjast mjög vel, þeir elska það. 

Þeir eru með kjarna af leikmönnum með mikla reynslu. Þú verður að virða það sem þetta lið gerir, það á skilið að vera í 16-liða úrslitunum,“ sagði franski landsliðsþjálfarinn á blaðamannafundi.

Leikur Frakklands og Póllands hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert