fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Arnar kærir forstjóra ÁTVR

Bjarki Sigurðsson
Miðvikudaginn 21. júlí 2021 15:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, hefur lagt fram kæru gegn Ívari J. Arndal, forstjóra ÁTVR. Hann greinir frá þessu í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla rétt í þessu.

Ívar kærði Arnar á dögunum til Skattsins og sakaði hann um að greiða ekki virðisaukaskatt. Kæran var síðar dregin til baka að sögn Arnars en Ívar baðst ekki afsökunar.

Sjá einnig: „Andlitslaus“ forstjóri ríkisstofnunar tjáir sig í ársskýrslum – Hvernig kemst hann upp með þetta?

Kæran sem Arnar leggur fram gegn Ívari er vegna þessarar ofangreindu kæru en í tilkynningu Arnars segir:

„Í 148. gr. hgl. er mælt fyrir um að hver sem með rangri kæru eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað skuli sæta fangelsi allt að 10 árum.“

Hér fyrir neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni.

Í upphafi maímánaðar hóf franska félagið Santewines SAS rekstur netverslunarinnar sante.is sem selur áfenga drykki á lægra verði en í vínverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR). Viðskiptin fara fram í Frakklandi en vörurnar eru afhentar ýmist á tilteknum afhendingarstöðum á landinu, með heimsendingu eða í vöruhúsi félagsins hérlendis. Kærandi er eigandi hins franska félags en er einnig eigandi Sante ehf., íslensks félags sem flytur inn vín.

Frá öndverðu hafa stjórnendur ÁTVR haft horn í síðu hins franska félags en þann 17. maí sl. birti ÁTVR á heimasíðu sinni fréttatilkynningu þar sem hún lýsti því yfir að hafinn væri undirbúningur að beiðni um lögbann á hendur vefverslunum með áfengi og höfðun dómsmáls í framhaldi af því. Sú lögbannsbeiðni var hins vegar ekki lögð fram, að kæranda vitandi.

Þann 9. júní birti ÁTVR á heimasíðu sinni aðra tilkynningu þar sem fram kom að hún hefði tilkynnt sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu um meint brot hins íslenska félags Sante ehf. á skyldum sem á því hvílir samkvæmt áfengisheildsölu-, áfengisframleiðslu og áfengisinnflutningsleyfum sem sýslumenn hafa gefið út. Kom fram að ÁTVR teldi fyrir liggja óyggjandi sönnun fyrir brotum Sante ehf. Það væri mat ÁTVR að rekstur vefverslunarinnar fæli í sér ótvírætt ásetningsbrot.

Í framangreindri tilkynningu til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. júní 2021 var aukinheldur fullyrt að útgefandi reikninganna hefði „hvorki íslenska kennitölu né virðisaukaskattsnúmer“. Sagði enn fremur: „Leyfishafi stundar brot sín fyrir opnum tjöldum og hefur lýst því yfir opinberlega að hann velji a sniðganga þau lög sem honum ber að fylgja. Þannig hlýtur að vera um skýran ásetning að ræða og vanræksla hans á að gegna skyldum sínum er bæði stórfelld og ítrekuð.“ Fór ÁTVR fram á að leyfisveitandi hæfi áminningarferli og sagði í fréttatilkynningu að hún útilokaði ekki að leita til dómstóla og krefjast eftir atvikum lögbanns á vefverslun Sante. Hefur sýslumaður ekki hafið slíkt áminningarferli, að kæranda vitandi, og lögbannsbeiðni hefur ekki komið fram.

Í lok júnímánaðar tók steininn svo úr þegar kærði kærði kæranda auk félaga hans tveggja, Santewines SAS og Sante ehf. til lögreglu og skattayfirvalda þar sem kærði kallaði eftir rannsókn og „viðeigandi refsingu“ yfir kæranda. Sagði kærði þar að af reikningum sem Santewines SAS hefði gefið út mætti ráða að lagður væri 11% virðisaukaskattur á hina seldu vöru. Fullyrti kærði enn fremur eftirfarandi: „Hið franska félag hefur hins vegar hvorki íslenska kennitölu né virðisaukaskattsnúmer og hefur enga heimild til þess að innheimta hér

virðisaukaskatt.“ Í bréfi til skattstjóra segir einnig að „ekkert bendi til þess“ að hið franska félag „greiði af áfenginu skatta og skyldur“ og því felist í starfseminni „undanskot á virðisaukaskatti“.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að hið franska félag Santewines SAS er bæði með íslenska kennitölu og virðisaukaskattsnúmerið 140848, sem skráð voru hjá Skattinum í apríl. Félagið gefur út reikninga með 11% virðisaukaskatti í samræmi við gildandi lög og hefur gert frá því félagið hóf starfsemi hér á landi. Gjalddagi virðisaukaskatts einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers almenns uppgjörstímabils, sem í tilviki Santewines SAS er tveir mánuðir. Þ.a.l. er innheimtur virðisaukaskattur frá upphafi starfsmi Santewines SAS hérlendis ekki í gjalddaga fallin.

Því liggur fyrir að kæra kærða til lögreglu og skattayfirvalda þar sem hann sakaði kæranda um stórfelld skattaundanskot var augljóslega röng að efni til.

Tilefni kæru og lagarök:

Í 148. gr. hgl. er mælt fyrir um að hver sem með rangri kæru eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað skuli sæta fangelsi allt að 10 árum.

Í kæru til lögreglu og skattayfirvalda fullyrðir kærandi að félag kærða hafi ekki virðisaukaskattsnúmer og sakar hann um stórfelld skattaundanskot. Brot í slíka veru eru eðlilega bæði alvarleg og ámælisverð, en ekki síst refsiverð. Þannig er kveðið á um það í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt sbr. 1. og 3. mgr. 262. gr. hgl. að sá sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skuli sæta fangelsi allt að 6 árum.

Eins og lýst er að framan hafði kæra kærða til lögreglu og skattayfirvalda enga stoð í raunveruleikanum. Þannig er ljóst að hið franska félag kæranda hafði fengið skráða kennitölu og virðisaukaskattsnúmer í apríl sl., og lítið mál að fá það staðfest. Aukinheldur var virðisaukaskattur Santewines SAS ekki fallinn í gjalddaga og því augljóst hverjum sem er, að alls ómögulegt að virðisaukaskatti hefði verið skotið undan. Má því ljóst telja að kærði hafi borið fram kæru sína gegn betri vitund, til þess eins að fá kærða sakaðan um refsiverðan verknað.

Af því sem hefur verið rakið hér að framan má ljóst telja að með kæru kærða til lögreglu og skattayfirvalda hafi kærði með rangri kæru leitast við að koma því til leiðar að undirritaður, saklaus maður, yrði sakaður um eða dæmdur fyri refsiverðan verknað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga