Stórsigur Dana – Noregur og Svíþjóð töpuðu

Adrian Figueras sækir að sænska markinu í kvöld.
Adrian Figueras sækir að sænska markinu í kvöld. AFP

Danir eru í kjörstöðu í A-riðli á Evrópumóti karla í handbolta eftir 34:23-sigur á Slóveníu í dag. Danska liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa og líta vel út.

Annan leikinn í röð var Mikkel Hansen markahæstur en hann gerði átta mörk og lagði upp sjö til viðbótar. Mathias Gidsel skoraði sjö. Borut Mackovsek skoraði sex fyrir Slóveníu. Danir eru með fjögur stig á toppi riðilsins, tveimur stigum fyrir ofan Danmörk og Svartfjallaland.

Evrópumeistarar Spánverja höfðu betur gegn Svíþjóð í stórleik í E-riðli. Staðan í hálfleik var 17:14 og var sænska liðið að elta allan seinni hálfleikinn, án þess að ná að jafna.

Magnus Gullerud gat ekki komið í veg fyrir norskt tap.
Magnus Gullerud gat ekki komið í veg fyrir norskt tap. AFP

Angel Fernandez skoraði átta mörk fyrir Spánn og Joan Canellas sjö. Hampus Wanne skoraði átta fyrir Svíþjóð og Jim Gottfridson sex. Spánn er með fjögur stig á toppnum og Svíþjóð og Tékkland eru með tvö hvor.

Í F-riðli hafði Rússland betur gegn Noregi, 23:22. Staðan í hálfleik var 14:12 og komst Rússland í 18:14 í seinni hálfleik. Norðmenn gáfust ekki upp, minnkuðu muninn í 21:20 en Rússar héldu út. Rússland er með fjögur stig og Noregur og Slóvakía tvö hvor.

Þá vann Króatía 23:20-sigur á Serbíu í C-riðli. Ivan Martinovic skoraði sex fyrir Króatíu og Bogdan Radivojevic fimm fyrir Serbíu. Frakkar eru á toppi riðilsins með fjögur stig og Króatía og Serbía með tvö hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert