Lítið reynir á stjórnarandstöðu í viðræðum um þinglok

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að ágreiningsmál milli stjórnarflokkanna …
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að ágreiningsmál milli stjórnarflokkanna séu það helsta sem stendur í vegi fyrir þinglokum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í rauninni hefur lítið reynt á okkur í þessum samningaviðræðum. Ég hef verið í mörgum þinglokasamningum undanfarinn áratug eða svo og þessi eru algjörlega einstök,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar eftir að mbl.is náði tali af henni eftir seinni fund þingflokksformanna Alþingis í dag. 

„Við eigum eftir að fá frá stjórnarmeirihlutanum yfirlit yfir málin sem þau vilja leggja áherslu á. Þetta er hins vegar svolítið sérstök staða það eru svo mörg mál sem þau fara ekki með í gegn um þingið því það er svo mikill ágreiningur þeirra á milli, milli stjórnarflokkanna,“ segir Oddný. 

Miðhálendisþjóðgarður í vegi fyrir þinglokum

„Við ætlum að hittast aftur á morgun. Það var engin niðurstaða núna en við vitum svona nokkurn vegin í hvaða átt þetta stefnir,“ segir Oddný og bætir við að hún vonist eftir því að á morgun muni þau vita hversu mörgum dögum þau þurfi að bæta við þingið en ljóst er að það verði að minnsta kosti starfandi út vikuna. Þá þurfi fyrst að ráða lausn á ágreiningi milli stjórnarflokkanna um miðhálendisþjóðgarð.

 „Þau tala um að vera með einhvers konar lausn á því máli en við vitum ekkert hver sú lausn verður. Það er auðvitað stórmál og við getum ekki gengið frá þinglokasamningi fyrr en komin er niðurstaða í það,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert