Við breyttum hugarfarinu fyrir leikinn

Dagur Arnarsson með Íslandsbikarinn í leikslok.
Dagur Arnarsson með Íslandsbikarinn í leikslok. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Dagur Arnarsson var öflugur í gærkvöldi er ÍBV vann sinn þriðja Íslandsmeistaratitil á tíu árum en liðið vann oddaleik við Hauka með 25 mörkum gegn 23. Dagur stýrði spili ÍBV af kostgæfni og yfirvegun en hann kom með beinum hætti að átta mörkum ÍBV, helming þeirra skoraði hann en hinn helminginn lagði hann upp.

„Þessi tilfinning er ólýsanleg, þriðji titillinn, hver öðrum betri. Að gera þetta á heimavelli er ólýsanlegt, maður er svo þakklátur því fólki sem mætir á alla þessa leiki og styður okkur sama hvað gerist. Að mæta hér og klára þetta fyrir framan þau er eins og ég segi ólýsanlegt,“ sagði Dagur en hann hefur verið í liði ÍBV í efstu deild allt frá árinu 2014 er liðið vann sinn fyrsta titil.

„Við komum léttari til leiks, við vorum þungir í leikjum 3 og 4, við vorum ólíkir sjálfum okkur, vorum ekki að spila af leikgleðinni sem við erum vanir. Við breyttum því hugarfari fyrir þennan leik, það var ekkert taktískt sem við gerðum öðruvísi, bara hugarfar og hvernig við ætluðum að horfa fram veginn.“

Eyjamenn hófu leikinn af miklum krafti en liðið tók forystuna snemma, sem hafði ekki gerst til þessa í heimaleikjum liðsins, var það mikilvægt þegar líða fór á?

„Við vorum staðráðnir í því, miðað við hvernig við byrjuðum leik 4, að byrja af krafti í dag. Við settum enga pressu á einn eða neinn, við ætluðum að mæta hérna, fagna með fólkinu okkar og byrja vel. Við vissum þá að eftirleikurinn yrði eins og hann var.“

Dagur spilaði mikið í dag, meira en í hinum leikjum einvígisins, Erlingur sagðist hafa leitað í reynslu Dags fyrir þennan oddaleik.

„Mér fannst ég vera að finna mig vel, ég náði góðu kontakti við leikmenn og hann treysti mér í dag, sem er geggjað. Ég er þakklátur fyrir það að hafa náð að klára þetta með þessum drengjum. Þetta var ótrúlega gaman.“

Dagur vann vel með Kára Kristjáni línumanni og Rúnari Kárasyni en hann stýrði spili ÍBV eins og áður segir mjög vel.

„Það er eitthvað sem við höfum unnið að í vetur, spilið okkar er kannski ekki mikið taktískt en það er mikið einn á einn, tveir á tvo og þrír á þrjá. Við erum góðir í því sem við erum að gera og það gekk vel í dag.“

Eyjamenn voru mikið undir í markvörslunni í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik og var ótrúlegt að sjá að liðið var yfir en samt með tvo bolta varða á móti átta hjá Haukum. Voru Eyjamenn að taka inn orkuna úr stúkunni til að brúa þetta bil?

„Við vorum meðvitaðir um að Aron Rafn er einn besti markvörður á Íslandi, við gátum ekki farið að stjórna því hvort að við værum með 10 bolta eða 15 bolta, hjá okkur var þetta bara næsta vörn og næsta sókn. Það var það sem skóp þennan sigur, við vorum fókusaðir á hverja sókn og hverja vörn fyrir sig.“

Hvenær áttaði Dagur sig á því að hann yrði Íslandsmeistari?

„Á 60. mínútu, þetta var allan tímann. Þegar við skoruðum síðasta markið okkar, þá var ég kannski búinn að átta mig á því en þetta var aldrei komið þar sem þeir sækja hratt á okkur. Ég viðurkenni það að þegar lokaflautið gall þá var þetta ansi sætt og góð tilfinning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert