Ég hefði átt að koma boltanum í markið

Sævar Atli Magnússon í leik með U21-árs landsliði Íslands gegn …
Sævar Atli Magnússon í leik með U21-árs landsliði Íslands gegn Grikklandi í undankeppni EM í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Atli Magnússon, framherji U21-árs landsliðs karla í knattspyrnu, fannst sem leikurinn gegn Portúgal í undankeppni EM á Víkingsvellinum í dag hefði getað dottið öðru hvoru megin en Portúgal hafði að lokum 1:0 sigur í hörkuleik.

„Mér fannst þetta bara vera 50/50 leikur sem datt þeirra megin í dag. Þeir voru meira með boltann en það skiptir ekki öllu máli í fótbolta. Leikplanið okkar var að leyfa þeim að koma upp á ákveðnum stöðum og setja síðan pressu á þá.

En við fengum færi, þeir fengu færi og þeir náðu að koma boltanum í markið en ekki við. Það var eini munurinn í dag,“ sagði Sævar Atli í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann átti mjög góðan leik í fremstu víglínu Íslands og fékk nokkur frábær tækifæri til þess að skora. Celton Biai í marki Portúgala átti hins vegar stórleik og varði allnokkrum sinnum frábærlega, þar af tvisvar frá Sævari Atla.

„Já hann var virkilega öflugur. Ég og nokkrir fleiri fengum góð færi og ég hefði klárlega átt að koma boltanum inn í dag, en stundum er þetta svona. Hann var góður og Jökull [Andrésson] í markinu hjá okkur var líka virkilega góður.

Ég er mjög spenntur að mæta þeim í Portúgal því við eigum klárlega séns í þá. Þetta er lið sem fór alla leið í úrslitaleikinn á EM. Það er virkilega gaman að keppa við svona lið og við áttum möguleika gegn þeim,“ sagði hann.

Verðum bara betri og betri

Sævar Atli sagði að þátt fyrir nokkuð rýra stigasöfnun til þessa, 4 stig úr fyrstu þremur leikjunum, væri sannarlega hægt að byggja á góðri frammistöðu dagins.

„Jú klárlega. Davíð [Snorri Jónasson] er náttúrlega nýr þjálfari og það var gott að fá viku núna til þess að æfa saman. Við erum að læra inn á hvern annan og verðum bara betri og betri með hverjum leiknum og hverri æfingunni.

Við værum til í að vera með fleiri stig en við erum virkilega spenntir fyrir framhaldinu og teljum okkur geta komist áfram í þessum riðli,“ sagði hann ákveðinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert