Andlát: Magnús Theodór Magnússon

Á myndinni, sem er nýleg, er Teddi við eitt verka …
Á myndinni, sem er nýleg, er Teddi við eitt verka sinna sem er staðsett á Hótel Grand.

Höggmyndalistamaðurinn Teddi, sem hét fullu nafni Magnús Theodór Magnússon andaðist í dag 20. júlí 2021. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði 86 ára að aldri.

Teddi fæddist árið 1935 og ól manninn í Reykjavík. Um miðjan aldur söðlaði hann um og gaf sig alfarið að listinni sem reyndist mikið heillaspor. Hann var var kunnur listamaður hérlendis og hélt fjölmargar sýningar á verkum sínum, m.a. í Perlunni frá því seint á síðustu öld og fram til ársins 2012 en hann hélt einnig sýningar í Þýskalandi, Finnlandi og í Færeyjum.

Á vefsíðu Tedda segir Andri Snær Magnason um listamanninn m.a.: „Teddi er listrænt ólíkindatól og verkin endurspegla persónu Tedda sjálfs, hann er kjaftfor og óhræddur og lætur allt flakka. Hann virðist óbundinn af hugmyndafræði eða stefnum og virðist ekki velta mikið fyrir sér hvað má og hvað má ekki, hann er óhræddur við að prófa sig áfram. Hann bindur sig ekki við ákveðnar aðferðir heldur er hann síleitandi, í álverkunum er hann til kominn lengra frá frumsköpuninni, þau eru söguð með tölvustýrðum leysigeisla eftir forskrift listamannsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert