Aron: Mun taka sinn tíma að jafna sig

Aron ræðir við fjölmiðla í dag.
Aron ræðir við fjölmiðla í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í handbolta, hefur litla trú á öðru en að Ísland sé úr leik í baráttunni um sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins, eftir tap fyrir Svíþjóð í gær.

Ísland þarf að vinna Brasilíu á morgun og treysta á að Grænhöfðaeyjar vinni Ungverja, sem er vægast sagt ólíklegt. 

„Ég hef enga trú á að Grænhöfðaeyjar geti strítt Ungverjum, ekki neitt. Við teljum okkur vera á leiðinni í síðasta leik mótsins á morgun. Við ætlum ekki að vera það þrönghugsi að Ungverjar tapi úrslitaleik á móti Grænhöfðaeyjum,“ sagð Aron við mbl.is í dag á liðshótelinu.

„Við ætlum að hugsa um okkur sjálfa, því við vitum að þessi leikur skiptir máli upp á framhaldið. Við ætlum að gera þetta fagmannlega,“ sagði hann.

Mótið hefur verið vonbrigði fyrir Aron, þar sem íslenska liðið ætlaði sér lengra og hann missti af stærsta leiknum vegna meiðsla.

„Það mun taka sinn tíma að jafna sig, en maður fær ekkert frí. Maður fer beint í meðhöndlun. Maður hefur sínar leiðir við að hreinsa hugann og reynir að vera með fjölskyldu og vinum,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert