Alsír slapp með skrekkinn í riðli Íslands

Alsírbúinn Walid Badi reynir að losa sig frá Lahcen Bellimane …
Alsírbúinn Walid Badi reynir að losa sig frá Lahcen Bellimane frá Marokkó í grannaslagnum í kvöld. AFP

Alsírbúar sluppu með skrekkinn gegn nágrönnum sínum frá Marokkó í fyrsta leiknum í riðli Íslands, F-riðlinum, á heimsmeistaramóti karla í handknattleik í Egyptalandi í dag.

Alsír vann leikinn 24:23, en Ísland mætir Alsír á laugardagskvöldið og Marokkó á mánudagskvöldið.

Marokkó kom hærra skrifuðum grönnum sínum í opna skjöldu og var með sjö marka forskot í hálfleik, 15:8. Alsírbúar söxuðu smám saman á forskotið í seinni hálfleik og gríðarleg spenna var á lokamínútunum eftir að þeir minnkuðu muninn í 22:21 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Alsír náði að jafna, 23:23, þegar 90 sekúndur voru eftir, og skoraði svo annað mark í röð úr hraðaupphlaupi í tómt mark, 24:23, þegar 50 sekúndur voru eftir. Það reyndist sigurmarkið og í eina skiptið sem Alsír var yfir í leiknum.

Alsír Abdi Ayoub 7, Berriah Abderahim 3, Nouredine Hellal 2, Daoud Hichem 2, Redouane Saker 2, Moustapha Hadj Sadok 2, Hichem Kaabeche 2, Reda Arib 2, Riad Chehbour 1, Messaoud Berkous 1.

Marokkó: Rezzouki Reida 6, Mohamed Zaroili 5, Mohammed Ezzine 3, Achraf Adli 3, Amine Harchaoui 3, Nabil Slassi 1, Mehdi Ismaili Alaoui 1, Yassine Idrissi 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert