Inga Björg Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri Attentus og einn af þremur stofnendum, segir að reksturinn árið 2019 hafi verið nokkuð sambærilegur fyrri árum. Segir hún að afkoma félagsins hafi ekki komið á óvart en helst hafi það verið kostnaður félagsins sem tók breytingum milli ára. Alls námu rekstrargjöld 172 milljónum króna árið 2019 og jókst um fjögur prósent. Inga Björg tekur fram að launa- og rekstrarkostnaður Attentus, líkt og annarra fyrirtækja, hafi hækkað talsvert á árinu.

Afkoma Attentus á árinu 2019 nam um 32 milljónum króna og dróst saman um nær fimmtung milli ára. Alls námu rekstrartekjur um 212 milljónum árið 2019 og héldust nær í stað milli ára. Segir Inga að við hagnaðarsamdrætti hefði mátt búast enda var samningi við stóran viðskiptavin að ljúka samhliða áðurnefndri launaþróun.

Vetrinum mætt með sveigjanleika í rekstri

„Þetta ár hefur verið talsvert krefjandi. Eins og gefur að skilja hafa átt sér stað miklar breytingar í stjórnun mannauðsmála. Fjarvinna hefur verið einkennandi á þessu ári með tilheyrandi breytingum á vinnuskipulagi sem enn ríkir mikil óvissa um. Vegna þessa hefur verið mikið að gera í ráðgjafavinnunni en auk þess höfum við þurft að tækla öðruvísi álitamál en áður,“ segir Inga Björg.

Til þess að mæta vetrinum og þeirri óvissu sem uppi er í þjóðfélaginu höfum við í okkar rekstri lagt áherslu á sveigjanleika í rekstri, og þar með kostnaði. Eftirspurnin er mikil, það hægði að einhverju marki á í vor en á heildina litið erum við ekki að sjá samdrátt á milli ára, enn sem komið er,“ segir Inga og bætir við að mikilvægast sé að reksturinn geti brugðist hratt við breyttum aðstæðum.

Félagið hafi ákveðið að draga eilítið saman seglin sökum óvissunnar með fækkun stöðugilda, meðal annars með því að vera með sveigjanleg starfshlutföll, frekar en að fara út í verktöku. „Það er að reynast okkur vel. Sumarið og haustið hefur skilað meiri eftirspurn en við áttum von á og hafa vegið upp rólegri tíma í mars og apríl í ár.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út á dögunum og unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .